Tenglar

19. maí 2013 | vefstjori@reykholar.is

Söngvar og myndir og sögur um krumma

Þjóðlagatvíeykið Funi, Chris Foster og Bára Grímsdóttir.
Þjóðlagatvíeykið Funi, Chris Foster og Bára Grímsdóttir.

Þjóðlagatvíeykið Funi, þau Bára Grímsdóttir og Chris Foster, verða með skemmtilega og fræðandi dagskrá um hrafninn fyrir börn í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi á miðvikudagsmorgun. Bára og Chris eru reynsluboltar þegar þjóðleg tónlist er annars vegar, þau syngja bæði og leika á íslenskt langspil, kantale og gítar. Til er fjöldinn allur af íslenskum alþýðulögum um krumma, sum þeirra eru mjög vel þekkt en önnur minna, og verða mörgum þeirra gerð skil í þessari dagskrá.

 

Krummadagskráin byggir á fjölbreyttri upplifun og er einkum miðuð við börn á aldrinum frá eins árs til átta ára. Börnin taka þátt í henni með söng auk þess að horfa á myndir sem varpað er á vegg. Dagskráin hefst kl. 10.30 um morguninn og tekur rúman hálftíma. Aðgangseyrir er kr. 1.500.

 

Auk þess að syngja leikur Bára á finnskt kantele en Chris spilar á gamla íslenska hljóðfærið langspil og á gítar, sem er þó stilltur öðruvísi en venjulegt er.

 

Bára Grímsdóttir ólst upp við söng og kveðskap, heyrði og lærði allt frá barnæsku kveðskap foreldra sinna, afa og ömmu í Grímstungu í Vatnsdal. Bára er af mörgum talin vera einn allra besti túlkandi þjóðlegrar tónlistar hér á landi, en hún hefur sérstakan áhuga á rímnastemmum og kvæðalögum. Hún hefur fengist við flutning á margs konar þjóðlagatónlist bæði hér heima og erlendis. Sem tónskáld og útsetjari hefur Bára nýtt sér uppsprettulindir íslenskra þjóðlaga til skapandi starfs og hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar sem tónskáld.

 

Chris Foster kynntist þjóðlögum í uppvexti sínum í Somerset í Suðvestur-Englandi. Flutningur hans einkennist af mikilli og persónulegri innlifun í tónlistina, sem oft leiðir til þess að áheyrendur verða beinir þátttakendur í því sem fram fer og flutt er. Chris hefur sett þjóðlagahefðina í nútímalegan búning með sérstæðum, frumlegum gítarundirleik og sannfærandi söngtúlkun. Hann er talinn einn besti listamaður síðari tíma á sínu sviði og í fremstu röð merkra brautryðjenda í endurvakningu á breskri þjóðlagatónlist.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31