Tenglar

21. desember 2012 |

Sorgarhorn á tveimur stöðum í Gufudalssveit

Sorgarhorn á Hallsteinsnesi.
Sorgarhorn á Hallsteinsnesi.

Undanfarna daga hefur farið um heimsbyggðina myndskeið þar sem örn virðist klófesta barn og fljúga með það góðan spöl. Leitt hefur verið í ljós, að þarna var um blekkingu að ræða. Hér á landi eru til frásagnir af því að ernir hafi hremmt börn. Í Gufudalshreppnum gamla er örnefnið Sorgarhorn á tveimur stöðum og fylgir þeim báðum saga af erni sem hrifsaði með sér barn. Í ritinu nýja um Gufudalshrepp, Þar minnast fjöll og firðir, er myndin sem hér fylgir af Sorgarhorni ásamt þessari klausu þar sem fjallað er um Hallsteinsnes milli Þorskafjarðar og Djúpafjarðar:

 

Þetta er vestasta fjallsbrúnin og næst Djúpafirði. Hornið var fyrr á tímum notað sem leiðarmerki á siglingu milli Skáleyja og Þorskafjarðar. Mælt er að þangað hafi örn flogið með barn sem hann hremmdi á vellinum að móðurinni ásjáandi. Annað Sorgarhorn er í landi Hlíðar við sunnanverðan Þorskafjörð og fylgir því sama sögnin. Ekki eru kunnar aðrar sagnir um að ernir hafi tekið börn á þessu svæði. Þeir eiga sér enn óðal í næsta nágrenni við Hallsteinsnes, það er í Stórabergi handan Djúpafjarðar.

 

Í grein um héraðið í Lesbók Morgunblaðsins 7. október 1951 segir Árni Óla, blaðamaður og rithöfundur:

 

Hallsteinsnesfjall heitir fram á hálsinum, en ysti fjallsmúlinn þar heitir Sorgarhorn. Tildrög þess nafns eru þau, að örn hremdi einu sinni barn á Hallsteinsnesi að móðurinni ásjáandi. Hafa ernir löngum átt heima í öxlunum og múlunum hjer milli fjarðanna, og enn munu þeir verpa þar, þótt fátt sje nú orðið um þá hjer á landi.

 

Sr. Sigurður Ægisson þjóðfræðingur, sem á sínum tíma var sóknarprestur í Bolungarvík og víðar en þjónar nú á Siglufirði, hefur ritað bækur bæði um íslenska fugla og um furðuskepnur í íslenskri þjóðtrú og þjóðsögum. Í Lesbók Morgunblaðsins 25. febrúar og 4. mars 1995 er mjög ítarleg grein eftir hann um haförninn og sagnir af honum fyrr og síðar. Sigurður tilfærir þar nokkur dæmi um sagnir af því að ernir hafi hremmt börn hérlendis. Hann byrjar samantekt sína um örninn (eða örnina, eins og margir segja) á þessa leið:

 

Sagnir um risavaxinn fugl, sem á að hafa numið á brott með sér í fyrndinni, eða nær í tíma, lítið barn, er víða að finna með þjóðum heimsins. Einnig hér á landi. Sumt fólk neitar þó að trúa slíkri fjarstæðu, já, rakalausum þvættingi, er það nefnir svo, að einhver fugl geti verið svo aflmikill, að hann megni að bera á flugi slíkan þunga, sem mannsbarn er. Aðrir segjast geta fallist á, að þeir fuglar séu til, er geti hugsanlega borið hvítvoðung einhverja vegalengd, en tæpast, og reyndar alls ekki, stálpaðra barn.

 

Sjaldnast tekst að greina umrædda barnaræningja til ákveðinnar fuglategundar - a.m.k. fylgir nafnið ekki, þegar sagan er borin áfram - heldur er það eitt nefnt, að um gríðarstórt kvikindi hafi verið að ræða. Þau dæmi koma venjulegast frá löndum vöxnum skógum, sem að auki eru lítt kannaðir. Þar gæti því hæglega leynst einhver risavaxinn kynjafugl, sem menn ekki þekkja enn sem komið er. Má í þessu sambandi minna á, að vísindamenn eru sífellt að finna áður óþekkt dýr á þessari plánetu, og sum ekki beint lítil, uppgötvuðu t.d. ókapann, fjallagórilluna og komodódrekann ekki fyrr en á þessari öld. Innfæddir íbúar þeirra landa, sem dýrin búa í, höfðu vitað um þau í margar aldir, og sagt frá; þeim var bara ekki trúað.

 

Hér á landi eru skógar bæði litlir og fáir, þannig að við getum algjörlega útilokað þann möguleika, að einhver framandi, vængjuð kynjaskepna leynist þar. Eina fuglategund okkar, sem hugsanlega er nógu kraftmikil til að hremma börn með sér á flug, er þess vegna haförninn.

 

Í samantekt sr. Sigurðar Ægissonar er meðal annars eftirfarandi frásögn af því að örn hafi hremmt barn á Skarði á Skarðsströnd við innanverðan Breiðafjörð, andspænis Reykhólum.

 

Kona nokkur, Ragnheiður Eyjólfsdóttir, sem fædd er 15. júlí 1877, varð einnig fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu þegar hún var tveggja ára gömul að haförn tók hana í klærnar og flaug með hana langan veg. Sem gefur að skilja man hún ekkert eftir þessu sjálf, en móðir hennar sagði henni oft frá þessu. Valtýr Stefánsson ritaði sögu Ragnheiðar, sem er á þessa leið:

 

Foreldrar mínir áttu heima á Skarði á Skarðsströnd. Faðir minn, Eyjólfur Eyjólfsson, var ráðsmaður hjá ekkju Kristjáns Skúlasonar kammerráðs, Ingibjörgu Ebenezardóttur. En móðir mín, Matthildur Matthíasdóttir, var þar í húsmennsku, að kallað var.

 

Móðir mín hafði farið niður að á til að þvo þvott. Var brekkuhall niður að ánni, þar sem þvottastaðurinn var. En skammt fyrir ofan var hvammur og uxu blóm þar innan um hvannir. Þetta var í túninu á Skarði. Móðir mín skildi mig eftir í hvannstóðinu, er hún fór að fást við þvottinn, taldi mig óhultari þar, fjarri vatninu.

 

Allt í einu heyrði hún, að ég rek upp hræðsluóp, en örn er kominn yfír mig, þar sem ég sat við að tína blóm. Skipti það engum togum, að örninn hefur sig upp og flýgur með mig í klónum hátt í loft upp, en ekki heyrðist til mín nema rétt snöggvast. Hefur strax liðið yfir mig.

 

Í fyrstu flaug örninn afar hátt þarna yfir. Er sem hann hafi viljað komast sem hæst strax, til þess að hann kæmist á ákvörðunarstað, þó að honum dapraðist flugið, er frá liði. En vitanlega var ætlun þans að koma mér upp í arnarhreiður, sem var í fjallinu fyrir ofan Kross.

 

Í Krossfjalli höfðu arnarhjón átt sér hreiður í mörg ár og alið þar upp unga sína. Gerðu ernir þessir oft óskunda meðal alifugla á Skarði, man ég, þegar ég var þar seinna um tíma, á tíu ára aldri.

 

Nú víkur sögunni til fólksins á Skarðstúninu, er þar var við heyskap. Þaut hver af stað sem betur gat, til þess að komast í færi við örninn. En sá leikur sýndist ójafn og útséð, hver endirinn yrði, enda sagði móðir mín, að þegar hún leit upp frá þvottinum við ána og horfði á eftir erninum með mig í klónum, gat hún ekki ímyndað sér, að hún sæi mig nokkurn tíma lifandi, og kannske ekki einu sinni liðna.

 

En hvatastur maður og snarráðastur þar var Bogi Kristjánsson, kammeráðs, er á þeim árum mun hafa verið fyrirvinna móður sinnar. Hann var skotmaður góður, og flaug honum fyrst í hug að freista að skjóta örninn. En hann sá samstundis, að það væri Lokaráð. Fyrst og fremst óvíst, hvort skotið kæmi í mig eða fuglinn, í öðru lagi ekki annað við það unnið, ef hann ynni örninn, en að ég félli til jarðar úr háalofti. Hann greip langa stöng og náði í röskan hest og reið áleiðis að Krossfjalli, þar sem hreiðrið var.

 

Og brátt kom í Ijós, að örninn hafði hér færst of mikið í fang. Ég var stór eftir aldri og reyndist fuglinum svo þung að áður en hann var kominn að fjallinu, dapraðist honum flugið, svo að hann flaug það lágt að Bogi komst á reiðskjóta sínum svo nálægt okkur að hann gat slengt stönginni í væng arnarins, svo að hann varð að setjast. Og þar sleppti hann byrðinni, en Bogi þá svo nálægt, að ránfuglinn, með sinn bilaða væng, gerði mér ekki mein, þar sem ég var komin, en lagði á flótta undan manninum.

 

Móðir mín sagði mér, að þar sem Boga tókst að slá stönginni í væng arnarins, hafi hann verið kominn yfir Krossá, svo að vegalengdin, sem hann hefur flogið með mig, hefur eftir því verið um þrír kílómetrar.

 

Þegar Bogi kom að, þar sem ég lá, var ég í yfírliði. Örninn hafði læst klónum gegnum föt mín á brjóstinu, og voru förin eftir klærnar í hörundinu, en sárin ekki djúp, því að fuglinn hafði fengið nægilegt hald í fötunum. Mig minnir, að mér hafí verið sagt, að örninn hafi læst nefinu í hár mitt á fluginu. En af því fékk ég engan áverka.

 

Móðir mín sagði mér síðar, að ég hefði verið dauf og utan við mig nokkra daga á eftir. En varanlegt mein fékk ég ekkert af þessari einkennilegu loftferð. Foreldrar mínir fluttu nokkru síðar út í Bjarneyjar. Þar átti ég oft að gæta yngri systkina minna úti við. Móðir mín ámálgaði jafnan við mig, meðan þau voru lítil, að gæta þeirra vandlega, þegar erni bæri þar yfir, en þeir sáust oft á flugi yfir eyjunum eða sátu þar á klöppum og skerjum.

 

 ► Þar minnast fjöll og firðir - Ýmislegt um Gufudalshrepp hinn forna í máli og myndum

 

Athugasemdir

Jónas Ragnarsson, laugardagur 22 desember kl: 02:20

Einstaklega fróðlegt.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31