Tenglar

4. mars 2011 |

Sparisjóðurinn í Nesi sagður renna inn í Landsbankann

Ríkið mun ekki veita Sparisjóði Keflavíkur (nú SpKef), sem m.a. rekur útibú í Króksfjarðarnesi, 14 milljarða króna í endurreisnarskyni eins og áformað hafði verið. Þess í stað mun rekstur hans renna inn í Landsbanka Íslands. Þetta er niðurstaðan eftir átök um málið innan ríkisstjórnarinnar, að því er fram kemur á vefritinu eyjan.is. Nokkuð er síðan ríkið yfirtók rekstur SpKef en hann hafði þá ekki staðist lágmarkskröfur um eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja um langt skeið. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra hefur talað fyrir því að „sparisjóðakeðjan“ yrði varin og endurreist og sagt að endurfjármögnun SpKef væri kjölfestan í þeirri stefnumörkun.

 

Á Eyjunni segir að gert hafi verið ráð fyrir að ríkið greiddi um 14 milljarða króna inn í hinn endurreista sparisjóð til að mæta skuldbindingum vegna innlána og til að uppfylla kröfur um lögbundið eiginfjárhlutfall.

 

Þessi áform hafa mætt andstöðu í hinum stjórnarflokknum, einkum hjá Árna Páli Árnasyni, efnhags- og viðskiptaráðherra, að þvi er segir á Eyjunni. Hann telur skorta að sýnt hafi verið fram á rekstrarlegar forsendur fyrir áframhaldandi starfsemi sparisjóðsins og því sé þessi fjárskuldbinding óábyrg að svo komnu máli. Niðurstaða stjórnarflokkanna nú er að láta rekstur SpKef renna inn í Landsbanka Íslands og verður það tilkynnt á næstunni. Það verður þó ekki útlátalaust fyrir ríkið enda þarf það að ábyrgjast innistæður í sparisjóðnum.

 

Spkef er nokkuð umsvifamikil á Vestfjörðum og rekur útibú, auk útibúsins í Króksfjarðarnesi í Reykhólahreppi, á Flateyri, í Súðavík, á Ísafirði, Þingeyri, Bíldudal, Patreksfirði og Tálknafirði.

 

Bankaútibúið í Króksfjarðarnesi á sér langa sögu. Fyrrum var það útibú Samvinnubankans, síðan Landsbankans, þá Eyrasparisjóðs (á Patreksfirði), svo Sparisjóðs Vestfirðinga, næstsíðast Sparisjóðs Keflavíkur og nú SpKef. Ef svo fer að ofanritað verði að veruleika er sagan að snúast nokkuð til baka. Varla eru samt líkur á því að þarna verði í framtíðinni útibú Samvinnubankans á ný ...

 

Halldór D. Gunnarsson (Venni) frá Gilsfjarðarmúla í núverandi Reykhólahreppi, áður Geiradalshreppi, var mjög lengi útibússtjóri í Nesi, allt frá dögum Samvinnubanka Íslands. Hann stóð af sér allar nafnabreytingar og hélt hvað sem þeim leið sínu striki í bankastörfum í þágu héraðsins með sóma í marga áratugi. Hann lét af starfi fyrir aldurs sakir fyrir nokkrum árum.

 
Afgreiðslustaðir SpKef
 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30