Tenglar

12. desember 2014 |

Spennusaga skrifuð að mestu í Reykhólasveit

1 af 2

Hvað fær ungan íslenskan verkfræðinema til að hætta í námi og skrá sig í liðsforingjaskóla þegar stríð liggur í loftinu? Hann lætur glepjast af áróðri nasismans og gengur til liðs við stríðsvél Þriðja ríkisins. Hann tekur þátt í mestu voðaverkum sögunnar og telur þann kost vænstan að láta sig hverfa í stríðslok. En getur hann slegið striki yfir fyrra líf og sleppt því að gangast við gerðum sínum?

 

Arfurinn, spennusaga um kjarkleysi og breyskleika eftir Borgar Jónsteinsson, teygir sig í Reykhólasveitina enda að miklu leyti skrifuð í Melbæ. Þessi fyrsta skáldsaga Borgars náði efsta sæti á lista Eymundsson yfir kiljur eftir að hún kom út í haust og var þar fram í nóvember.

 

Ingvi Þór Kormáksson skrifar ritdóm á vefnum bokmenntir.is og segir þar m.a.:

 

Já, þetta er forvitnilegt, og svo er líka forvitnilegt að sjá hvernig til tekst hjá höfundi sem er að senda frá sér fyrstu skáldsögu sína.

 

Og það er í sjálfu sér ekki hægt að segja annað en nokkuð vel hafi tekist til. Þetta er lauflétt afþreying, í raun átakalítil ástarsaga með spennuívafi eða spennusaga með rómantísku ívafi. Ásgeir er reyndar dálítið klaufalegur stundum og svo er hann gjarn á að roðna eins og feimin yngismær. Hann er engin hetja sem sýnir visst raunsæi. Alvarlegustu kaflarnir og jafnvel þeir bestu tengjast dagbókarfærslum, bréfum og minningum afans frá því úr stríðinu og eftir að hann er kominn til fyrirheitna landsins, Argentínu.

 

Ekki er hægt að kalla þetta glæpasögu þótt stríðsglæpir komi við sögu í fjarlægri fortíð, en kannski spennusögu, með góðum vilja. Allavega er þetta saga sem maður gleypir í sig á tveimur kvöldstundum og má mæla með sem slíkri.

 

Bókin er í kilju og laglega gengið frá henni, en nafn höfundar kannski í of ljósum og hógværum lit til að sjást greinilega. En þetta er sem sé ein af þessum sögum sem renna viðstöðulaust ofan í lesandann.

 

Lokaorð Ingva Þórs Kormákssonar eru þessi:

 

Miðað við ýmsar aðrar afþreyingarbókmenntir, til að mynda eftirtaldar sem stórt forlag gaf út nýverið, 20 tilefni til dagdrykkju og Þessi týpa, þá hefur Arfurinn heldur betur vinninginn yfir þær báðar. Athyglisverð frumraun.

 

Arfurinn eftir Borgar Jónsteinsson fæst í Hagkaup, Bónus og bókabúðum og á eymundsson.is.

 

Arfurinn á Facebook

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31