Spurningakeppnin: Breiðfirðingar í þriðja sæti
Liði Breiðfirðingafélagsins auðnaðist ekki að verja meistaratitilinn frá því í fyrra í Spurningakeppni átthagafélaganna. Lokarimman var háð í fyrrakvöld þar sem liðin fjögur sem eftir stóðu kepptu í undanúrslitum og úrslitum. Þar unnu fyrst Skaftfellingar Breiðfirðinga og Húnvetningar Siglfirðinga en í úrslitunum unnu Skaftfellingar Húnvetninga og þurfti bráðabana til að knýja fram úrslit. Breiðfirðingar urðu í þriðja sæti og Siglfirðingar í því fjórða.
Spurningakeppni átthagafélaganna var haldin í fyrsta sinn fyrir ári. Sextán félög sendu lið til keppni að þessu sinni eins og í fyrra. Höfundur spurninga, spyrill og dómari var nú sem þá Gauti Eiríksson frá Stað á Reykjanesi í Reykhólasveit. Allar umferðir fóru fram í Breiðfirðingabúð við Faxafen í Reykjavík eins og í keppninni á síðasta ári. Að lokinni úrslitarimmunni var opið hús og gleði og gaman.
Myndirnar sem fylgja eru úr myndasyrpu á Facebooksíðu keppninnar og birtar hér með góðfúslegu leyfi.
Félögin sextán sem sendu lið til keppni eru talin hér fyrir neðan. Athygli vekur rétt eins og í fyrra, að liðugur helmingur þeirra tengist Vestfjarðakjálkanum.
- Arnfirðingafélagið
- Árnesingafélagið
- Átthagafélag Héraðsmanna
- Átthagafélag Strandamanna
- Barðstrendingafélagið
- Breiðfirðingafélagið
- Dýrfirðingafélagið
- Félag Álftfirðinga og Seyðfirðinga vestra
- Félag Djúpmanna
- Húnvetningafélagið
- Norðfirðingafélagið
- Siglfirðingafélagið
- Skaftfellingafélagið
- Súgfirðingafélagið
- Vestfirðingafélagið
- Vopnfirðingafélagið
► 05.02.2014 Spurningakeppni átthagafélaganna að hefjast
► 25.04.2013 Breiðfirðingafélagið sló alla út í spurningakeppninni