Spurningar um flest milli himins og jarðar
Nóg er um að vera á Reykhóladögum í dag, föstudag, eins og aðra daga. Nefna má sundlaugarfjörið í Grettislaug, hverfakeppnina í Hvanngarðabrekku, þaraboltann við Álftaland, pöbbkvissið, fótboltagolfið og dansleikinn sem stendur fram á nótt.
Á pöbbkvissinu (Pub Quiz) á Báta- og hlunnindasýningunni eru skemmtilegir vinningar sem miðast við aldur vinningshafa.
„Hlökkum til að sjá ykkur sem flest og auðvitað með góða skapið“, segir Harpa Björk Eiríksdóttir, framkvæmdastjóri sýningarinnar.
Spurningar sem fólk má búast við verða tengdar sýningunni (hverjir vita mest?), spurningar tengdar sveitinni, tengdar tónlist, kvikmyndum, dögunum og veðrinu og reyndar verður spurt um hvað eina. Mest mega vera 6 saman í liði - og þeir sem ekki hafa lið, þeim verður auðvitað reddað.