4. maí 2010 |
Sr. Elína Hrund ræðir um Kvennakirkjuna
Sr. Elína Hrund Kristjánsdóttir sóknarprestur í Reykhólaprestakalli flytur erindi um Kvennakirkjuna í kvöld, þriðjudag. Erindi hennar, sem er öllum opið, verður í Leifsbúð í Búðardal um kl. 21 að loknum aðalfundi Sambands breiðfirskra kvenna (SBK) sem þar verður á undan. Veglegar veitingar verða í boði Kvenfélagsins Þorgerðar Egilsdóttur.
Innan SBK eru nú þrjú kvenfélög með 55 félagsmenn. Kvenfélagið Katla í Reykhólahreppi hefur eflst verulega síðan kvenfélögin tvö í hreppnum sameinuðust.
SBK hefur nokkrum sinnum fengið fjárstyrk frá Héraðsnefnd Dalasýslu og Austur-Barðastrandarsýslu, en ekki hefur verið sótt um slíkt síðustu ár sökum þess að starfið í sambandinu er frekar fábreytt. Hins vegar starfa kvenfélögin á Reykhólum og í Búðardal með miklum krafti. Að auki leggja sveitarfélögin fram nefskatt á hvern íbúa til orlofs húsmæðra lögum samkvæmt.
Jóna Valgerður Kristjánsdóttir í Mýrartungu í Reykhólasveit hefur verið formaður Sambands breiðfirskra kvenna um árabil.