Staðarandi Reykhóla - Greining og tillögur
Fyrsti ávöxtur þess hluta hins fjölsótta íbúaþings á Reykhólum fyrir tæpu ári sem snerist um skipulagningu Reykhóla og nágrennis og framtíðarþróun sem ferðamannastaðar hefur litið dagsins ljós. Það er þrjátíu síðna bæklingur með heitinu Staðarandi Reykhóla - Greining og tillögur, sem ráðgjafarstofan Alta hefur unnið á grundvelli þeirra hugmynda sem þar komu fram ásamt vettvangsskoðunum og annarri heimildavinnu. Sá hluti íbúaþingsins bar yfirskriftina Mótun framtíðarsýnar, skipulag og hönnun sjálfbærs áfangastaðar á Reykhólum og var skipulagður af Alta að beiðni Reykhólahrepps. Markmiðið var að safna saman upplýsingum og hugmyndum um upplifanir á Reykhólum sem nýta mætti í ferðaþjónustu.
Í inngangsorðum samantektarinnar segir meðal annars:
Tilgangurinn með þessu yfirliti er að draga fram auðlegð og sérstöðu svæðisins ásamt hugmyndum um það hvernig má styrkja hana til að skerpa ímynd Reykhóla út á við. Íbúar og fyrirtæki geta þá nýtt sér hana og áhugasamir fjárfestar geta betur glöggvað sig á kaupbætinum sem þeir fá. Ekki er tekin afstaða til einstakra verkefna eða hugmynda sem fram hafa komið en leitast við að færa sveitarstjórn grunn til að byggja á ákvarðanir um ráðstöfun lands og annarra gæða. Huga þarf að því að sérstaðan glatist ekki þótti hún sé nýtt á hóflegan hátt.
Bæklingurinn er ríkulega myndskreyttur og hefur að geyma mörg skýringarkort. Hann skiptist í fimm meginkafla, sem nefnast Saga og menning, Lífríki og landslag, Orkan, Ströndin og Ævintýri.
Varðandi íbúaþingið á Reykhólum:
► 12.03.2013 Fólkið í Reykhólahreppi blés sameiginlega í seglin