Staðarandi Reykhóla aðeins byrjunin
„Verkefnið hefur verið mjög skemmtilegt, margir hafa komið að því og veitt því stuðning,“ segir Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps, um hugmyndabankann sem greint var frá hér á vefnum í gær og hlotið hefur heitið Staðarandi Reykhóla. „Fyrir rúmu ári fékk Reykhólahreppur í samvinnu við Sjávarsmiðjuna á Reykhólum styrk frá Ferðamálastofu til að vinna að skipulagi Reykhóla sem ferðamannastaðar. Viktoría Rán hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða hafði þá fengið á borð til sín verkefni bæði frá Reykhólahreppi og Sjávarsmiðjunni varðandi samliggjandi svæði,“ segir Ingibjörg Birna.
„Ákveðið var að freista þess að fá styrk frá Ferðamálastofu í sameiginlegt verkefni í nafni Reykhólahrepps, og það gekk eftir. Ráðgjafarstofan Alta vann fyrsta hlutann, hugmyndabankann sem kynntur var á vef Reykhólahrepps í gær. Það er aðeins byrjunin og var sá hluti unninn í samvinnu við íbúa í hreppnum,“ segir Ingibjörg Birna.
„Í framhaldi af vinnu Alta eru Vatnavinir (Eyland) teknir við boltanum og vinna nú deiliskipulag fyrir svæðið. Vegna deiliskipulagsins þarf að breyta aðalskipulagi og mun Landmótun annast það. Von er á því að afrakstur þeirrar vinnu líti dagsins ljós á vordögum,“ segir sveitarstjóri.
Sjá nánar fréttina í gær:
► Staðarandi Reykhóla - Greining og tillögur
Sjá einnig:
► 23.11.2012 Hæsti styrkurinn kemur á Reykhóla