Tenglar

12. ágúst 2021 | Sveinn Ragnarsson

Stækkun friðlandsins í Flatey

Ráðherra og ráðuneytisstjóri ásamt fulltrúum ábúenda í eynni, sveitarfélagsins Reykhólahrepps, Breiðafjarðarnefndar, Umhverfisstofnunar og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.
Ráðherra og ráðuneytisstjóri ásamt fulltrúum ábúenda í eynni, sveitarfélagsins Reykhólahrepps, Breiðafjarðarnefndar, Umhverfisstofnunar og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.
1 af 4

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði í dag auglýsingu um stækkun friðlandsins í Flatey.

 

Meginmarkmið friðlýsingarinnar er að vernda sérstætt og fjölbreytt lífríki svæðisins og búsvæði fugla, einkum varpsvæði fágætra fuglategunda, s.s. þórshana, kríu og lunda. Friðlandið hefur hátt vísinda- og fræðslugildi og er vel þekkt á meðal vísindamanna og fuglaáhugafólks. Búsvæði og lífríki í fjörum og í sjó er afar fjölbreytt og mikilvægt fæðusvæði margra fuglategunda. Náttúrufegurð svæðisins er einnig mikil og þar finnst m.a. marhálmur sem er sjaldgæfur á landsvísu.

 

Markmið með friðlýsingunni er einnig að tryggja rannsóknir og vöktun á lífríki svæðisins, með áherslu á búsvæði og afkomu varpfugla og að tryggja fræðslu um fuglalífið í eynni og nágrenni.

 

Í Flatey hefur um langt skeið verið náið samspil manns og náttúru þar sem nýting náttúruauðlinda hefur farið fram með sjálfbærni að leiðarljósi. Þá er eyjan vinsæll ferðamannastaður.

 

Með viðbótinni nú er stærð friðlandsins tvöfölduð, í 1,62 km2. Stækkunin er austan marka verndarsvæðis í byggð og nær til eyja, hólma og skerja suður af Flatey. Þar sem friðlandið nær í sjó fram tekur friðlýsingin til hafsbotns, lífríkis og vatnsbóls. Friðlandið er innan verndarsvæðis Breiðafjarðar sem er verndað með sér lögum.

„Flatey er óumdeilanlega perla Breiðafjarðar. Náttúran sjálf segir sína sögu um það hvað gerði eyna að ákjósanlegri miðstöð mannlífs við Breiðafjörð. Hér er merkileg saga búsetu þar sem samspil manns og náttúru var og er í jafnvægi. Líffræðileg fjölbreytni svæðisins er mikil enda fjölskrúðugt fuglalíf í eynni sem byggir afkomu sína á fjölbreyttu fæðuframboði á landi, í fjörum og í sjó. Það er því mikilvægt fyrir komandi kynslóðir, okkur sjálf og gesti okkar að tryggja verndun perlu eins og Flateyjar,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

 

Viðstaddir stækkunina voru fulltrúar ábúenda í eynni, sveitarfélagsins Reykhólahrepps, Breiðafjarðarnefndar, Umhverfisstofnunar og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

 

Af vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

 

Athugasemdir

Gunnar Sveinsson, fstudagur 20 gst kl: 17:09

Eftir því sem ég veit best þá er almennt sátt um þessa stækkun friðlands í Flatey. Eitt stingur þó í stúf. Það eru 47 hús og húshlutar í Flatey. Þessir eigendur hafa unnið hörðum höndum að endurbætum, uppgerð og viðhaldi húsa okkar í Flatey í ótrúlega mörg ár og lagt gríðarlega mikla fjármuni í húsin okkar í Flatey. Við greiðum fasteignagjöld, lóðagjöld og önnur gjöld af húsum okkar sem nemur ca 8 - 10 milljónir á ári til sveitarfélagsins og er það vel. Þessir fjölmenni hagsmunahópur átti engan fulltrúa í þessari viðhöfn 12. ágúst s.l. Við fréttum af þessari viðhöfn daginn eftir að hún var afstaðin. Voru þó ótrúlega margir í Flatey á þessum degi. Hefðum viljað hitta eitthvað af þessu góða fólki og spjalla.

Flateyjarkveðjur
Gunnar Sveinsson
Eyjólfshúsi - Flatey

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31