Stærðfræðivefurinn Rasmus og tengslin við Reykhóla
Stærðfræðivefurinn Rasmus.is hefur vaxið og dafnað og breiðst út innan lands og utan á undanförnum árum, en að honum standa þeir bræðurnir og kennararnir Hugo og Tómas Rasmus. Amma þeirra og afi voru Steinunn Hjálmarsdóttir og Þórarinn Árnason á Reykhólum og hér um slóðir eiga þeir margt ættingja og venslafólks. Að kennaraprófi loknu var Hugo kennari og síðan skólastjóri á ættarslóð á Reykhólum í nokkur ár kringum þrítugt. Áður var hann stýrimaður og skipstjóri á ýmsum gerðum báta og trillukarl að auki. Eiginkona hans er María Játvarðardóttir frá Miðjanesi í Reykhólasveit. Ein dætra þeirra er Hrefna Hugósdóttir, hjúkrunarforstjóri í Barmahlíð á Reykhólum, en Stefán Magnússon maður hennar kennir íþróttir við Reykhólaskóla. Þar kennir líka Steinunn Rasmus, systir þeirra bræðra.
Í Skólavörðunni, málgagni Kennarasambands Íslands, var nú í vetur sagt frá hinum stórmerkilega stærðfræðivef Rasmus.is og rætt við þá bræður Hugo og Tómas um vefinn og þá sjálfa. Upphafsorðin þar eru á þessa leið: „Þeir bræður Hugo og Tómas Rasmus hafa vakið athygli og aðdáun víða í skólakerfinu fyrir stærðfræðivefinn sinn fína, Rasmus.is. Ekki einungis vegna þess að vandað er til verksins og hugmyndin góð, heldur líka af því að vefurinn er unninn af hugsjón en ekki með skjótfenginn gróða í forsæti."
Þótt jafnan sé talað um stærðfræðivefinn Rasmus.is er hann í rauninni einnig tungumálavefur. Hann er auk íslensku kominn á dönsku, norsku, sænsku, ensku, pólsku, rússnesku og spænsku og er þannig byggður, að nemendur og annað fólk sem talar ólík tungumál getur auðveldlega unnið saman og hjálpast að við stærðfræðina.
Fyrir utan íslenska skóla eru á annað þúsund erlendir skólar áskrifendur að vefnum. Nú er búið að semja og setja inn á hann námsefni allt frá fyrsta bekk í grunnskóla og upp í 500-áfangana í framhaldsskóla, auk efnis fyrir raungreinadeildir framhaldsskóla og frumgreinadeildir í háskólum. „Möguleikarnir eru miklir og við erum bara rétt að byrja", segir Hugo. Nefna má, að aðsóknina og notkunina á vefnum Rasmus.is má sjá á Modernus.is, vef Samræmdrar vefmælingar.
Viðtalið við Hugo og Tómas Rasmus má lesa hér í Skólavörðunni (pdf) á bls. 8-9, auk þess sem á forsíðu blaðsins er mynd af þeim bræðrum við bernskuheimili þeirra í Kópavogi. Sjálfir eru þeir báðir kennarar í Kópavogi, Hugo við Menntaskólann í Kópavogi og Tómas við Salaskóla. Fyrirsögnin á viðtalinu er Hugo og Tómas hjá Rasmus.is - trillukarlinn og skákþjálfarinn.