Stærsta einstaka farminum skipað út frá Reykhólum
Á dögunum lagðist flutningaskipið Haukur að bryggju í Reykhólahöfn og lestaði 1.600 tonn af lausu þara- og þangmjöli sem dælt var úr sílóum Þörungaverksmiðjunnar og flutt til Noregs. Um ákveðin tímamót var að ræða í tvennum skilningi, segir í tilkynningu frá verksmiðjunni. Annars vegar var um að ræða stærsta einstaka farm sem skipað hefur verið út á vegum verksmiðjunnar og hins vegar komu undirverktakar í fyrsta sinn að útskipun fyrir fyrirtækið.
Um verkið sáu starfsmenn frá Skipaafgreiðslu Vestfjarða, sem er nýstofnað dótturfélag skipaafgreiðslunnar Kletts í Hafnarfirði. Starfsmenn Þörungaverksmiðjunnar voru þeim til aðstoðar þar sem þetta var í fyrsta sinn sem utanaðkomandi aðilar sáu um meðhöndlun afurðanna.
Stjórnendur Þörungaverksmiðjunnar og Kletts eiga nú í viðræðum um að starfsmenn Skipaafgreiðslu Vestfjarða taki að sér útskipun á afurðum verksmiðjunnar frá höfninni á Reykhólum. Náist samningar sjá starfsmenn hennar fram á að geta einbeitt sér alfarið að framleiðslu fyrirtækisins með því að útvista hafnarstörfunum til undirverktaka. Síðar kæmi hugsanlega einnig til greina að fela undirverktökum löndun á hráefni verksmiðjunnar, sem er þari og þang úr Breiðafirði.
Á vegum Þörungaverksmiðjunnar er einnig hafin vinna við að skoða möguleika þess að afla Gretti, flutningaskipi fyrirtækisins, frekari verkefna við Breiðafjörð og Vestfirði, segir í tilkynningunni.
Klettur í Hafnarfirði hefur mörg undanfarin ár sinnt hafnarstörfum við útskipanir og landanir fyrir viðskiptavini sína á Vestfjörðum, einkum Íslenska kalkþörungafélagið á Bíldudal auk Saltkaupa, en félagið á enn fremur í viðræðum við önnur fyrirtæki á Vestfjörðum. Með stofnun Skipaafgreiðslu Vestfjarða hyggst fyrirtækið festa sig betur í sessi sem þjónustuaðili á suðurfjörðum Vestfjarða og mun fyrirtækið á næstunni opna starfsstöð á svæðinu.
Guðjón D. Gunnarsson, fstudagur 25 oktber kl: 21:21
M.ö.o. er hafinn undirbúningur að flutningi starfa úr hreppnum. Svo var þetta væntanlega þangmjöl.