Starfsfólkið í Barmahlíð allt hvert öðru betra
Ef veður er ekki í hvassasta lagi má iðulega sjá grannvaxinn mann með færeyska húfu og göngustaf í spássitúrum á Reykhólum. Þetta er Hákon Árnason, sem verið hefur búsettur á dvalarheimilinu Barmahlíð um árabil. Hann er upprunninn í héraðinu en kom víða við á langri starfsævi áður en hann settist að á gömlum slóðum á ný. Oft kemur hann við hjá undirrituðum á gönguferðum sínum og hefur frá mörgu að segja. „Ég fer út að ganga flesta daga nema helst í hvössu. Ég datt einu sinni á nefið í hvassviðri - það sést ennþá á nefinu á mér og ég mátti þakka fyrir að brotna ekki", segir Hákon, og ekki alls fyrir löngu fékk hann sér staf til halds og trausts.
Hákon Árnason er 88 ára og hálfu ári betur, fæddur á Hamarlandi í Reykhólasveit 11. janúar 1920. Hann var sjómaður nokkuð á fjórða áratug á flestum tegundum skipa en lengst á nýsköpunartogurum Bæjarútgerðar Reykjavíkur. Sjómennskuna byrjaði hann sextán ára gamall á síldarbát en síðar á ævinni var hann um tíma á varðskipi og síðan um skeið í fraktsiglingum víða um heim. Hákon keyrði einnig um tíma vörubíl hjá Kaupfélagi Króksfjarðar í Króksfjarðarnesi og leigubíl í Reykjavík, nokkur ár vann hann í Þörungaverksmiðjunni og síðustu starfsárin hjá Reykhólahreppi.
Hákon var yngstur fjölmargra systkina. Alsystkinin voru tólf en auk þess átti hann þrjá hálfbræður. Hann lifir nú einn eftir af þessum stóra hópi. Meðal bræðra hans var Karl Árnason á Kambi í Reykhólasveit og skyldfólk á hann í Gautsdal.
„Í Barmahlíð hef ég ekki kynnst öðru en góðu fólki", segir Hákon. „Þar líður mér vel. Starfsfólkið er allt hvert öðru betra og yfirhjúkrunarkonur hafa verið ágætar alla tíð."
Færeyska húfan má kallast einkennismerki Hákonar. Eitt sinn fyrir langalöngu þegar hann var á togaranum Hallveigu Fróðadóttur var komið við í Klakksvík í Færeyjum til að taka ís á heimleið úr söluferð til Cuxhaven. Tækifærið var notað til að fara á ball - „og þar hittum við Færeying sem hafði verið í Ólafsvík og hann vildi endilega gefa mér færeyska húfu. Svo týndi ég henni einhvern veginn löngu seinna, en frændi minn sem fór á Ólafsvökuna keypti þessa sem ég er með núna og gaf mér. Ég er búinn að eiga hana í mörg ár og nota hana til spari."