Stefndi niður þverhnípi í Gilsfirði
„Í öllum látunum flaug ég yfir í farþegasætið enda ekki í belti frekar en venja var á þessum stóru bílum þá. Bíllinn stefndi niður þverhnípi og mér leist ekkert á þetta. Ég opnaði dyrnar og ætlaði að stökkva út, en þá stöðvaðist bíllinn rétt áður en hann húrraði út í sjóinn. Það mátti fjandi litlu muna þarna.“ Þetta segir Ólafur Þór Erlingsson frá Reykhólum, sem hefur ekið rútum og vörubílum síðan hann tók meiraprófið fyrir tæpum þremur áratugum. Hann hefur verið bílstjóri hjá Þrótti í 20 ár og ekur Mercedes Benz Actros.
Rætt er við Ólaf Þór í Atvinnubílablaði Viðskiptablaðsins. Þar segir einnig m.a.:
Það hefur oft verið mikið að gera hjá Óla í vinnunni og segir hann að það hafi stundum bitnað á betri helmingnum.
„Á byrjunarárum mínum hjá Þrótti hringdi eiginkonan eitt sinn í mig og spyr hvort ég færi ekki að koma heim í kvöldmat. Ég var þá á Gullinbrú og við bjuggum þá í Grafarvogi. Ég sagðist vera á leiðinni. Síðan liðu tveir tímar og þá hringir frúin í mig og spyr hvort það taki mig svona langan tíma að aka þessa stuttu leið. Þá viðurkenndi ég fyrir henni að ég hefði óvænt lent í vinnu í millitíðinni en gleymdi að láta hana vita. Hún hefur verið mjög þolinmóð við mig þessi elska og hjónabandið haldið öll þessi ár,“ segir Óli og brosir.
Í viðtalinu er líka greint frá viðurnefninu sem Óli ber með ánægju og uppruna þess þegar hann var ungur drengur í Reykhólaskóla. „Þegar ég varð eldri var nafngiftin ekki eins mikið feimnismál og menn þorðu að segja nafnið við mig í eigin persónu,“ segir Óli með kímnisvip.