Stefnir í metár hjá Orkubúi Vestfjarða
Orkuvinnsla virkjana Orkubús Vestfjarða (OV) hefur gengið vel það sem af er ári. Núna þegar mánuður er eftir af árinu er framleiðslan komin í 87 gígavattstundir (GWh), sem er meira en allt árið bæði 2013 og 2014, en þau ár voru óvenju slök. Varlega áætlað má búast við 93 GWh ársframleiðslu, sem yrði met. Mesta framleiðslan fram að þessu var árið 2012 eða 90 GWh og árið 2007 þegar hún var 89 GWh.
Þetta er meðal þess sem fram kemur á vef fyrirtækisins í pistli Sölva R. Sólbergssonar, framkvæmdastjóra orkusviðs.
Þar kemur einnig fram, að Þverárvirkjun við Steingrímsfjörð sé hástökkvari ársins. Vinnsla hennar er nú þegar komin í 7,8 GWh en var 5 GWh allt árið í fyrra, sem var það slakasta frá því að virkjunin var endurbyggð og tekin í rekstur fyrir árslok 2001. Meðaltalsframleiðslan þessi 13 ár er 6,3 GWh en metið er frá 2007 eða 8,7 GWh. Vatnsstaða í lóni Þverárvirkjunar er góð. Hvort metið frá 2007 verður slegið á síðan eftir að koma í ljós.