Tenglar

29. júlí 2014 | vefstjori@reykholar.is

Stefnt að lítilsháttar niðurgreiðslu á refaveiðum

Umhverfisstofnun hefur gert drög að samningi við sveitarfélög til þriggja ára um niðurgreiðslur vegna refaveiða. Síðustu tvö ár hafa sveitarfélög þurft að standa undir öllum kostnaði við refaveiðar, en í fjárlögum er gert ráð fyrir að 30 milljónir króna fari í niðurgreiðslur til sveitarfélaga vegna refaveiða.

 

Þetta kemur fram í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag. Þar segir ennfremur meðal annars:

 

 

„Þetta er hefndargjöf“

 

Ekki finnst öllum sveitarfélögum niðurgreiðslan nægilega mikil. Kristján Andri Guðjónsson, fulltrúi Í-lista í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, segir fjárveitinguna vera hefndargjöf.

 

„Framlagið frá ríkinu er of lítið miðað við þann fjölda refa sem þarf að veiða í sveitarfélaginu. Refir eru orðnir stórt vandamál hérna og sveitarfélagið hefur ekki burði til að gera það sem þarf að gera. Með þessum breytingum er staðan sú fyrir Ísafjarðarbæ að ef við veiðum fyrir sex milljónir fáum við 600 þúsund krónur frá ríkinu. Þessi skipting er kolvitlaus. Ísafjarðarbær er í 10% endurgreiðsluhlutfallinu þrátt fyrir að búa yfir miklu landsvæði. Við viljum vera færð í hærri endurgreiðsluflokk. Þetta fyrirkomulag gengur ekki. Þetta er bara bull,“ segir Kristján.

 

Endurgreiðsluhlutfallinu er skipt í fjóra flokka, 33%, 30%, 20% og 10% eftir fjölda íbúa á hvern ferkílómetra. Ísafjarðarbær fellur í 10% flokkinn með 1,673 íbúa á hvern ferkílómetra.

 

Grisja land í eigu ríkisins

 

„Ríkið henti öllum kostnaði vegna refaveiða á sínum tíma á sveitarfélögin, en sveitarfélögin hafa ekki burði í þetta og því hafa refaveiðar setið á hakanum. Við erum ekki að grisja refastofninn nógu mikið eins og staðan er í dag. Þessi endurgreiðsla er hefndargjöf frá ríkinu. Ríkið á að koma meira að þessu verkefni. Það eru nefnilega ekki sveitarfélögin sem eiga allt landið, heldur á ríkið það líka, og við erum í mörgum tilfellum að grisja land sem eru í eigu ríkisins,“ bætir Kristján Andri við.

 

Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, er ekki heldur sáttur með drögin að samningnum, en Fljótsdalshérað eyddi 5,4 milljónum króna árið 2013 í refaveiðar. Fljótsdalshérað er með 446 íbúa á ferkílómetra og fær því 20% kostnaðarins vegna refaveiða endurgreiddan, sem hefði numið 1,08 milljónum króna það árið.

 

Þegar Björn var spurður hvers vegna ríkið ætti að niðurgreiða refaveiðar sveitarfélaga sagði hann: „Það er náttúrlega almannahagur að refastofninum sé haldið í skefjum. Svo það sé hvati hjá sveitarfélögum til að koma að þessu myndarlega þá held ég að best sé að ríkið geri það líka. Sum sveitarfélög hafa farið þá leið að draga verulega úr fjármunum til refaveiða, sem er slæmt því þá verður verkefnið erfiðara í framtíðinni, enda stækkar refastofninn.“

 

Fram kemur í fréttaskýringunni í Morgunblaðinu, að refastofninn hafi að líkindum meira en tífaldast á síðustu þrjátíu árum.

 

Sjá einnig:

Undarlega mikið af hlaupadýrum í Reykhólahreppi

Leggst þungt á fámenn en víðlend sveitarfélög

Vill koma skipulagi á refaveiðar á ný

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31