Stefnt að námskeiði um Laxdæla sögu
Félag eldri borgara í Dalabyggð og Reykhólahreppi hyggst í samvinnu við Sögufélag Dalamanna, Víkingafélag Dalamanna og líka ef til vill Lionsklúbbinn standa fyrir námskeiði um Laxdælu dagana 1. og 9. mars. Til þess að af námskeiðinu verði þarf a.m.k. 20 þátttakendur. Kennari verður Bjarki Bjarnason frá Mosfelli í Mosfellssveit, sem haldið hefur slík námskeið við miklar vinsældir.
Þess má geta, að Bjarki á ýmis náin tengsl við Reykhólasveit. Hann er bróðursonur Vilhjálms Sigurðssonar, fyrrum bónda og oddvita á landnámsjörðinni Miðjanesi, og systursonur Sveins heitins Guðmundssonar, fyrrum bónda og kennara á Miðhúsum rétt austanvert við Reykhóla, hins ötula fréttaritara Morgunblaðsins um áratugaskeið. Skólaárið 1985-86 var Bjarki skólastjóri á Reykhólum.
Áformað er að námskeiðið verði annað hvort í húsi Rauða krossins í Búðardal eða Dalabúð (færi eftir fjölda) og standi kl. 13-18 hvorn dag. Verð yrði sex til átta þúsund krónur eftir fjölda þátttakenda. Námsgögn innifalin.
Þátttaka tilkynnist í síma 434 1124 (Þrúður) fyrir 10. febrúar.
► Um Laxdæla sögu (Wikipedia)
► Laxdæla saga (Netútgáfan)