Tenglar

22. júlí 2011 |

Stefnt að umhverfisvottun alls Vestfjarðakjálkans

Hafinn er undirbúningur að alþjóðlegri umhverfisvottun Vestfjarðakjálkans í heild. Á síðasta ári ákváðu Ferðamálasamtök Vestfjarða að stefna að því að fá EarthCheck-umhverfisvottunina fyrir Vestfirði og nú hefur bæjarráð Ísafjarðarbæjar samþykkt fyrir sitt leyti að hafist verði handa við forvinnu þess verkefnis. Markmiðið er að vestfirsk sveitarfélög sameinist undir merkjum Fjórðungssambands Vestfirðinga um að stefna að slíkri vottun og var á síðasta Fjórðungsþingi samþykkt að vinna að því.

 

EarthCheck-vottunarsamtökin eru áströlsk og annast vottun samfélaga og ferðaþjóna og veita þeim umhverfismerki sem standast fyrirfram ákveðnar kröfur. Samtökin byggja á sterkum faglegum grunni og eru þróuð af fyrirtæki í eigu áströlsku ferðaþjónustunnar, ástralska ríkisins og háskóla. Um er að ræða stærstu rannsóknamiðstöð ferðamála í heiminum og markmið hennar er að stuðla að sjálfbærni í ferðaþjónustu.

 

„EarthCheck er eini staðallinn fyrir umhverfisvottun sem snýr að fyrirtækjum og samfélögum. Ef Vestfirðir ákveða að sækjast eftir umhverfisvottun myndi EarthCheck veita aukinn styrk“, segir í minnisblaði Fjórðungssambands Vestfirðinga.

 

Snæfellsnes hefur nú þegar fengið umhverfisvottun frá EarthCheck, fyrst allra svæða á Íslandi, og mikið er hægt að byggja á þeirri vinnu sem þar hefur verið unnin. Í minnisblaði Fjórðungssambandsins segir að ávinningur af þátttöku yrði þríþættur.

 

Í fyrsta lagi yrði það fyrir umhverfið sjálft, en maðurinn hefur með athöfnum sínum víða skaðað umhverfi sitt til lengri eða skemmri tíma. Vistkerfi eru víða undirstaða menningar og grundvöllur lífsgæða. Ef áfram verður haldið án þess að umgengni við umhverfi batni er útlit fyrir að ýmis vistkerfi gætu látið verulega á sjá eða hreinlega hrunið, t.d. vegna gróðurhúsaáhrifa, mengunar og eyðingar náttúrulegra búsvæða.

 

Í öðru lagi myndi það leiða til sparnaðar í rekstri. Það að vera umhverfisvænn er í raun það sama og fara sparlega með auðlindir.

 

Þriðja ástæðan er markaðssetning, en sífellt fleiri ferðamenn leggja mikið upp úr því að ferðaþjónar gangi vel um umhverfið. Vottun sveitarfélaga er því gott tækifæri til markaðssetningar í ferðaþjónustu. Með vottuninni geta Vestfirðir því orðið álitlegri búsetukostur, hvort sem er fyrir núverandi eða nýja íbúa.

 

Næstu skref verkefnisins eru að halda fundi með sveitarstjórnum í fjórðungnum til að fá fram sameiginlega sýn sveitarfélaganna og fá samþykki fyrir áframhaldandi vinnu við umsóknarferlið.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31