Steinninn sem pabbi lagaði til
Segja má að þessi steinn sé í raun listaverk eftir Svein heitinn Guðmundsson bónda og kennara á Miðhúsum í Reykhólasveit. Svipmótið tekur hægfara breytingum þegar skófirnar taka sér bólfestu með sínum fallegu litum og mynstri. Þannig má segja að hér sé tönn tímans ekki harðsækin, heldur þvert á móti, þegar viðfang hennar mýkist og verður blíðlátara með árunum. Steinninn er í garðinum við Miðhús og birti Þrymur Sveinsson þessa mynd á Facebook-síðu sinni með yfirskriftinni Steinninn sem pabbi lagaði til.
Beðinn um nánari upplýsingar segir Þrymur:
Götin hjó hann til með öxi. Steininn fann pabbi úti í Barmalöndum, í einni eyjunni sem er auðug af sérkennilegum steinmyndunum. Hann kom honum um borð í bátinn sem hér var og hét Elliði og heim fór hann í garðinn norðanverðan. Ég man að hann talaði um með töluverðu stolti að þetta hefði ekki verið létt verk, en með sameiginlegu átaki heimilisfólksins var þetta hægt. Þetta hefur verið á árunum 1963-1968 sem steinninn kom hingað heim.
Þrymur Sveinsson, sunnudagur 07 jn kl: 13:14
Þakka þér kærlega fyrir þessa óvæntu og skemmtilegu grein.