Steypireyður strand í Berufirði
Hringt var á hreppsskrifstofuna um morguninn þriðjudaginn 22. júní og uppi varð fótur og fit. Samkvæmt símtalinu, sem var frá starfsmanni MAST, þá var steypireyður fastur í Berufirði og það þurfti að bjarga honum.
Finna þurfti einhvern til þess að vera í samskiptum við MAST vegna björgunaraðgerða. Inga Birna var í leyfi og því var hringt í Árnýju oddvita en hún var upptekin og því tók Ingimar að sér að vera fulltrúi Reykhólahrepps í björgunaraðgerðum.
Hann hafði samband við konuna hjá MAST sem tjáði honum að þetta væri bara hnúfubakur en ekki steypireyður. Það væri flóð kl. 14 og þá best að bjarga honum.
Ingimar og stelpurnar á skrifstofunni skelltu sér í bílinn og keyrt var á öðru hundraðinu til þess að sjá skepnuna með berum augum en lítið fór fyrir henni. Þá hringdi starfsmaður MAST aftur í Ingimar og sagði honum að hugsanlega væri hnúfubakurinn laus, bændurnir á Lindarbrekku hefðu haft samband.
Eitthvað þótti þetta skrítið, enginn hafði heyrt um nýbýlið Lindarbrekku og Ingimar spurði hvort að hún væri að meina Berufjörð fyrir austan? Sem reyndist vera.
Hvað lærðum við á þessu? Miklvægt er að þekkja landið sitt!
Gunnar Sveinsson, fstudagur 25 jn kl: 15:54
Dásamleg frétt. Steypireyðurinn breyttist í hnúfubak og Berufjörður fræðist austur á bóginn á landakortinu. Það kemur stundum fyrir að okkar Flatey sé ruglað saman við systur hennar á Skjálfanda eða jafnvel býlið Flatey í dreifbýlinu nálægt Höfn í Hornafirði. Það er einnig til Flatey pizza í Reykjavík en ég held ekki að þessi ágæta pizza sé rugluð saman við Flatey á Breiðafirði. Flateyjarkveðjur - Gunnar í Eyjólfshúsi