Tenglar

1. febrúar 2014 | vefstjori@reykholar.is

Stiklur frá langri ævi Unnar á Kambi

Karl og Unnur á Kambi. Þakkarkossinn eftir matinn vantaði aldrei.
Karl og Unnur á Kambi. Þakkarkossinn eftir matinn vantaði aldrei.
1 af 2

Unnur Halldórsdóttir frá Kambi í Reykhólasveit var jarðsungin í Reykhólakirkju í dag. Hún var langelst íbúanna í Reykhólahreppi, fædd 10. ágúst 1916 og var því á 98. aldursári nær hálfnuðu þegar hún andaðist þann 17. janúar. Eiginmaður Unnar var Karl Árnason frá Hlíð í Þorskafirði, fæddur 20. ágúst 1911. Þau gengu í hjónaband 3. janúar 1938 og hafði hjúskapur þeirra því staðið í tæp 66 ár þegar hann lést á 93. aldursári hinn 5. nóvember 2003.

 

Unnur fæddist á Patreksfirði og ólst þar upp. Foreldrar hennar voru Margrét Hjartardóttir og Halldór Jóhannesson og var hún næstelst átta barna þeirra. Elst var Jóhanna en á eftir Unni komu Sigrún, Guðrún Fanney, Jóhannes Páll, Elísabet, Hjörtur Óli og Högni.

 

Þegar Unnur var á 18. ári hleypti hún heimdraganum og fór sem kaupakona að Borg í Reykhólasveit. Hún var orðin þreytt á vinnunni í saltfiskinum á Patró þannig að hún og Valgerður vinkona hennar réðu sig í kaupamennsku í Reykhólasveit og hafa e.t.v. ekki hugsað sér að staldra lengi við.

 

En í Borg kynntist Unnur ástinni sinni og mannsefninu Karli Árnasyni frá Hlíð. Foreldrar hans voru Guðbjörg Loftsdóttir og Árni Ólafsson en uppeldisforeldrar hans voru Jóhanna Friðrika Loftsdóttir móðursystir hans og maður hennar, Sumarliði Guðmundsson í Borg. Eftir fyrsta sumarið í Borg fór Unnur til Reykjavíkur og lærði að sauma en kom aftur að Borg sumarið eftir.

 

Þau Unnur og Karl eignuðust sjö börn:

  1. Sumarliði, f. 16. október 1938, d. 16. maí 1942.
  2. Guðbjörg, f. 22. mars 1940, maki Kristján Magnússon.
  3. Jóhanna, f. 10. apríl 1943, maki Karl Bjarnason.
  4. Sumarliði, f. 24. mars 1945, maki Guðlaug Óskarsdóttir.
  5. Sigrún Dúna, f. 23. febrúar 1947, maki Hafsteinn Runólfsson.
  6. Halldór, f. 22. febrúar 1952, maki G. Sæbjörg Jónsdóttir.
  7. Björgvin, f. 21. mars 1957, maki Guðrún Bóel Hallgrímsdóttir.

Núna eru afkomendur Unnar og Karls komnir á fimmta tuginn.

 

Elsta barnið sitt, Sumarliða eldri, misstu þau þegar drengurinn var þriggja og hálfs árs og sorgin var óbærileg. Þá fannst Unni gott að eiga trúna á Guð, og trúin og góðir vinir komu henni og þeim hjónum báðum í gegnum þennan tíma eins og hægt er þegar slíkt áfall ber að höndum.

 

Þau Unnur og Karl hófu búskap í Borg en árið 1946 keyptu þau jörðina Kamb í Reykhólasveit. Þar bjuggu þau hamingjusöm í hálfa öld eða fram til 1996 þegar þau festu kaup á íbúð á Akranesi. Þar höfðu þau vetrardvöl en voru á Kambi á sumrin meðan heilsa leyfði. Ungu hjónin á Kambi sem keyptu af þeim jörðina, þau Kalli dóttursonur þeirra og Lóa kona hans, hugsuðu um þau af einstakri ást og umhyggju. Frá árinu 2007 og til dauðadags var Unnur búsett á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Barmahlíð á Reykhólum og naut þar hinnar bestu umönnunar.

 

Unnur var ekki há í loftinu þegar hún var send í sveit að Lambavatni á Rauðasandi til aðstoðar Rebekku sem þar bjó við eitt og annað. Síðan vann hún við að vaska og breiða fisk á Patreksfirði áður en hún flutti í Reykhólasveitina. Henni féll sjaldnast verk úr hendi og alltaf var nóg að gera hjá henni. Þau Kalli byggðu jörðina sína upp af myndarskap og nóg var snúast í kringum börnin þeirra, sem ætíð stóðu næst hjarta hennar. Mjög gestkvæmt var á Kambi enda bærinn í þjóðbraut og oft fékk fólk að gista þar á ferðalögum milli landshluta. Alltaf var nóg pláss á Kambi og fjöldi barna var þar til dvalar í lengri eða skemmri tíma. Kærleikur, hlýja og gestrisni voru þeim hjónum í blóð borin og á Kambi áttu allir skjól.

 

Þrátt fyrir viðbrigðin að flytja úr þorpi í sveit gat Unnur ekki hugsað sér betra líf þó að eflaust hafi dagarnir oft verið lengi að líða í slæmum vetrarveðrum þegar Kalli var í póstferðum. Þá var ekki sími á hverjum bæ eða í hverjum vasa eins og í dag og ekki daglegar fréttir að fá.

 

Unnur og Kalli á Kambi voru samhent hjón. Hann las fyrir hana á kvöldin meðan hún sat við sauma, en til þess var helst næði seint á kvöldin þegar börnin voru sofnuð. Þegar Dalalífsbækur Guðrúnar frá Lundi komu út las Kalli meðan Unnur saumaði og Gugga elsta dóttirin var fljót að ná því að að varpa saumana og gera hnappagöt því að þá mátti hún vaka lengur og hlusta líka á pabba lesa. Svo áttu þau til að taka nokkur létt danspor á eldshúsgólfinu ef svo bar undir. Og þakkarkossinn eftir matinn vantaði aldrei.

 

Unnur hélt reisn sinni, andlegum kröftum og ljúfri lund alveg til hins síðasta og fylgdist vel með öllu, bæði því sem sneri að hennar nánustu og þjóðmálunum. Þrátt fyrir hinn háa aldur vissi hún betur en margur annar hvað var að gerast í pólitíkinni. Hún lagði alltaf ríka áherslu á að allir og þó sérstaklega konur nýttu kosningaréttinn. Margrét móðir hennar hélt mjög á lofti réttindum kvenna. Unnur minntist þess hvernig 19. júní var hafður í heiðri á Patreksfirði þegar hún var ung, en þann dag árið 1915 fengu íslenskar konur kosningarétt til Alþingis, að vísu með nokkrum takmörkunum í fyrstu.

 

Eitt af barnabörnum Unnar tók við hana viðtal fyrir nokkrum árum, þar sem hún lýsir því meðal annars hvernig hátíðarhöldin 19. júní fóru fram. Einnig er hægt í þessu viðtali að fræðast um líf hennar var þegar hún var barn og ung stúlka. Þar minnist hún á kuldann, skóna sem hún saumaði sér og þegar hún fór ásamt systur sinni og hafði vöruskipti og fékk mjólk í skiptum fyrir fiskinn sem pabbi þeirra veiddi. En þrátt fyrir kulda og basl minntist Unnur þessara tíma með brosi á vör.

 

Athugasemdir

Magnús S.Gunnarsson 1911493949, sunnudagur 02 febrar kl: 22:33

Með söknuði kveð ég Unni,en henni kynnntist ég og Kalla manni hennar er ég ungur drengur var í sveit,í Hóum,sem er næsti bær við Kamb.Ég kom oft að Kambi og alltaf var það sama glaðlega viðmótið sem ég fékk.Eitt sinn dvaldi ég þar í nokkra daga,veiktist er ég var á ferðalagi á mínum bíl og pabbi(Hjörtur Ó.Halldórsson),mamma(Anna P.Magnúsdóttir og systkin mín eru voru með á ferðalaginu.Ég veiktist ag varð því eftir á Kambi,þá kynntist ég þeim sæmdarhjónum og heimilisfólkinu öllu mjög vel,varð eins og einn af fjölskyldunni,og þennan tíma man ég eins vel og gerst hafi í gær.Votta börnum,tengdabörnum og öllum ættingjum hennar Unnu,mínar dýpstu samúðarkveðjur,en ég gat því miður ekki verið viðstaddur út för hennar.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31