Tenglar

16. október 2014 | vefstjori@reykholar.is

Stjórn Skógræktarfélags Reykjavíkur á móti

Horft til suðurs yfir Þorskafjörðinn. Ljósm. Vegagerðin.
Horft til suðurs yfir Þorskafjörðinn. Ljósm. Vegagerðin.

Stjórn Skógræktarfélags Reykjavíkur segir ályktun stjórnar Skógræktarfélags Íslands um Teigsskóg ekki vera í samræmi við vilja kjörinna fulltrúa skógræktarfélaga í landinu eins og hann birtist á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands. Í byrjun þessa mánaðar sendu Skógræktarfélag Íslands og sjö skógræktarfélög á Vestfjörðum frá sér sameiginlega ályktun um stuðning við vegagerð í Teigsskógi eftir nýrri veglínu Vegagerðarinnar þar sem mjög verulega er dregið úr raski í skóginum. Í tilkynningu frá stjórn Skógræktarfélags Reykjavíkur segist hún ekki styðja ályktun Skógræktarfélags Íslands.

 

Ályktunin hafi ekki verið kynnt fyrir aðildarfélögum áður en gengið var frá henni. Enn fremur segir að aðalfundur fari með æðsta vald í málefnum Skógræktarfélags Íslands. Ekki hafi verið sammælst um stuðning við veg um Teigsskóg á aðalfundinum. Tillaga stjórnar Skógræktarfélags Íslands um að lýsa yfir stuðningi við framkvæmdirnar var tekin fyrir í skógræktarnefnd á aðalfundi félagsins. Þar mætti hún nokkurri andstöðu og var vísað til stjórnar.

 

Fulltrúar frá Skógræktarfélögum Hafnarfjarðar og Reykjavíkur voru meðal þeirra sem töluðu gegn tillögunni. Rökin voru meðal annars þau að hlutverk Skógræktarfélags Íslands væri að stuðla að skógrækt og verndun skóga og skógaleifa og vinna gegn eyðingu skóga og síst af öllu að taka afstöðu í þjóðfélagsdeilu með þeim hætti að styðja þann málstað að skógur skyldi ruddur.

 

Í ályktun stjórnar Skógræktarfélags Reykjavíkur segir: „Vegarlagning um Teigsskóg hefur um langa hríð valdið deilum í samfélaginu, þar sem fjölmargir náttúruverndarmenn, þ.á m. skógræktarmenn, hafa lýst sig andvíga þeirri skógareyðingu sem óhjákvæmilega hlytist af. Bent hefur verið á að aðrir kostir á vegtengingum séu fyrir hendi. Teigsskógur myndar samfellt kjarr og er einn heillegasti og um leið fallegasti villti birkiskógurinn á Vestfjörðum. Með uppbyggðum vegi yrði eyðilagður skógur á um sex hektara svæði auk þess sem gamalgróið vistkerfi skógarins yrði rofið. Þeir eru ófáir sem líta svo á að þessi skógur sé gersemi sem beri að vernda.“

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31