Stjórnvöld verða að standa með landsbyggðinni
Jón Bjarnason alþingismaður og fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra heimsótti í dag vinnustaði á Reykhólum og nokkra bæi í héraðinu. Þetta var framboðsferð, en Jón skipar efsta sæti J-listans (Regnbogans, framboðs um fullveldi Íslands) í NV-kjördæmi. Með honum í för var Barbara Ósk Guðbjartsdóttir, tónlistarmaður og bóndi í Miðhúsum í Kollafirði á Ströndum, sem skipar 3. sæti J-listans, en leiðsögumaður þeirra í heimsókninni var Björn Samúelsson á Reykhólum, sem skipar 9. sæti listans.
„Þetta er gjöfult hérað, hér eru miklar náttúruauðlindir bæði til lands og sjávar. Fyrrum var Breiðafjörðurinn matarkista Íslendinga og hér eru tækifærin enn í dag,“ sagði Jón.
„Það er ánægjulegt að sjá dugnað fólksins hér og finna væntingarnar til þess að geta gert enn meira og enn betur. Stjórnvöld verða að standa með landsbyggðinni: Það er hérna sem atvinnutækifærin eru, það er af landsbyggðinni sem útflutningstekjurnar koma - frá sjávarútvegi og landbúnaði, matvælavinnslu og ferðaþjónustu,“ sagði Jón Bjarnason.
► Jón Bjarnason, helstu æviatriði á vef Alþingis