Stofnun fjallskilasjóðs í Reykhólahreppi undirbúin
Mikil vinna hefur farið í fjárleitir í Múlasveit og ekki tekist að fara á öll svæðin. Þegar hafa verið lögð til í leitirnar 15 dagsverk frá Bergsveini Reynissyni leitarstjóra og hans mönnum og 30 dagsverk frá Fremri-Gufudal, auk 15 dagsverka frá bæjum á Barðaströnd. Leitir eru orðnar of erfiðar og tímafrekar vegna aukins vaxtar á gróðri á svæðinu og svæðið víðfeðmt og fáir til leitar.
Þetta kemur fram í fundargerð fjallskilanefndar Reykhólahrepps í fyrradag. Nefndin lagði til við sveitarstjórn að lagt verði 2% á landverð allra jarða í sveitarfélaginu til að mæta kostnaði sem af fjallskilum leiðir og ekki verður jafnað niður á búfjáreigendur sem dagsverkum. Jafnframt að lagt verði gjald á allt fjallskilaskylt búfé í sveitarfélaginu, eða 20 krónur á hverja veturfóðraða kind.
Sveitarstjórn tók vel í þessar tillögur fjallskilanefndar á fundi sínum í gær og samþykkti að oddviti og varaoddviti vinni ásamt nefndinni að stofnun fjallskilasjóðs.