Tenglar

18. janúar 2017 | Umsjón

Stóraukin sala á innlendu nautgripakjöti

Skýringarmynd: Morgunblaðið.
Skýringarmynd: Morgunblaðið.

Sala á nautgripakjöti frá innlendum framleiðendum jókst mikið á síðasta ári, eða um rúm 21%. Innflutningur virðist hafa minnkað eitthvað á móti en samt er umtalsverð neysluaukning. Sala á alifuglakjöti jókst einnig verulega og hafa kjúklingar styrkt stöðu sína sem vinsælasta kjötið á markaðnum hér. Hlutdeild þess af innlendri framleiðslu er orðin yfir þriðjungur, auk þess sem talsvert er flutt inn.

 

Seld voru 26.730 tonn af kjöti af öllum tegundum frá innlendum framleiðendum á síðasta ári. Er það liðlega 6% aukning í heildina frá árinu á undan. Ekki liggja fyrir upplýsingar um innflutning á kjöti allt árið, en ljóst er að innflutningur á kjúkling og svíni hefur aukist en innflutningur á nautgripakjöti minnkað.

 

Þetta kemur fram í baksviðsgrein Helga Bjarnasonar blaðamanns í Morgunblaðinu í dag. Þar segir einnig meðal annars:

 

Af innlendu framleiðslunni var langmest selt af alifuglakjöti. Aukningin er rúm 700 tonn frá fyrra ári og að viðbættum innflutningi má búast við að aukning sé yfir 1.000 tonn. Sala á kindakjöti jókst um rúm 5% á milli ára. Vegna aukinnar framleiðslu og minni útflutnings hafa birgðir kindakjöts aukist um 460 tonn frá ársbyrjun til ársloka. Sala á svínakjöti dróst saman, ef eingöngu er litið til innlendrar framleiðslu. Vegna aukins innflutnings er þó útlit fyrir að salan hafi í heildina lítið breyst milli ára, jafnvel aukist.

 

Ferðamaðurinn vigtar þungt

 

Mesta söluaukningin er í nautgripakjöti. Innlend framleiðsla jókst um 767 tonn. Það er að hluta til vegna aukinnar heildarsölu á markaðnum hér en að hluta vegna minni innflutnings á nautgripakjöti.

 

„Þetta er jákvætt. Ferðamaðurinn vigtar þarna mjög þungt. Þessi aukna sala er að töluverðu leyti í gegn um veitingastaði og stóreldhús,“ segir Arnar Árnason, formaður Landssambands kúabænda.

 

Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands, segir að fjölgun ferðafólks hafi jákvæð áhrif á sölu á nautakjöti og kjúklingi. Einnig telur hann að merkja megi neyslubreytingar vegna aukinnar hamborgaramenningar sem auki eftirspurn eftir innlendu nautgripakjöti.

 

Steinþór segir jákvætt að sjá sölu kindakjöts aukast um 5,2% sem hann rekur til þess að nokkur árangur hafi náðst í sölu til ferðafólks. „Það er í útflutningi á lambakjöti sem einkum er vandi, meðal annars vegna þess að Norðmenn eru ekki að kaupa 600 tonn eins og þeir hafa yfirleitt gert. Það skýrir birgðaukningu. En menn leita nýrra markaða,“ segir hann.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31