Stóri plokkdagurinn 25. apríl
Stóri plokkdagurinn verður haldinn á Degi umhverfisins á morgun, 25. apríl, og skipuleggjendur hafa óskað eftir að sem flest sveitarfélög hvetji íbúa sína til þátttöku.
Ruslasvæði Reykhólahrepps verður opið milli 12 og 15 þennan sama dag. Hægt verður að nálgast ruslapoka þar fyrir plokkið. Munið að nota hanska við plokkið og virða tveggja metra regluna.
Að plokka gefur fólki tækifæri á að sameina útiveru og hreyfingu sem og að sýna umhverfinu og samfélaginu kærleik í verki. Það er tilvalið í samkomubanni þar sem auðvelt er að virða tveggja metra regluna. Að plokka fegrar umhverfið en það er víða sem náttúran er illa sett af plasti og rusli ýmiskonar eftir stormasaman vetur.
Frábær útivera og hreyfing um leið og við finnum fyrir tilgangi, sjáum árangur, eflum núvitund og gerum umhverfinu og samfélaginu okkar gott. Plokkið kostar ekkert og kallar ekki á nein tæki nema ruslapoka.
Plokk er ekki brot á samkomubanni.