Stórmerkilegar fornleifaskýrslur úr Reykhólahreppi
Fyrir skömmu var sett hér á vefinn skýrsla um byggða- og húsakönnun í Flatey á Breiðafirði. Núna hafa sjö skýrslur bæst við, en þar er greint frá ýmsum fornleifarannsóknum í Austur-Barðastrandarsýslu og Dalasýslu. Sumar varða staði í Dalasýslu en aðrar í Reykhólahreppi, sem allt frá 1987 hefur spannað alla hina gömlu Austur-Barðastrandarsýslu. Þar á meðal er Flateyjarhreppurinn gamli. Innan hans - og nú Reykhólahrepps - er mestur hluti Breiðafjarðareyja.
Skýrslurnar má nálgast (á pdf-formi) í liðnum Byggð og saga - skýrslur hér í valmyndinni vinstra megin.
Fornleifafélag Barðstrendinga og Dalamanna hefur undanfarin ár staðið fyrir fjölbreyttum rannsóknum í Austur-Barðastrandarsýslu og Dalasýslu. Mesta áherslan hefur verið lögð á að skrá og mæla upp menningarminjar í Breiðafjarðareyjum og hafa Skáleyjar, Hergilsey, Akureyjar, Oddbjarnarsker og Öxney verið heimsóttar. Skýrslur eru komnar út um flest verkefnin og eru þær birtar hér á vefnum. Von er á fleirum með vorinu auk fornleifa- og örnefnakorta. Það er von þeirra sem að félaginu standa, að staðkunnugir bendi forsvarsmönnum á það sem betur má fara, bæði í skýrslum og á tilvonandi kortum. Þrátt fyrir góðan vilja slæðast villur alltaf með og heimamenn eru snöggir að sjá það sem aðkomufólki yfirsést.
Fornleifafélag Barðstrendinga og Dalamanna var stofnað haustið 2007. Markmið þess voru og eru að beita sér fyrir fornleifarannsóknum og nýsköpun í menningartengdri ferðaþjónustu.
Markmiðum sínum hyggst félagið ná með því að:
- Efla rannsóknir á svæðinu með þverfaglegri samvinnu fræðimanna, stofnana og félaga með áherslu á hagnýta notkun og framsetningu gagna.
- Auka þekkingu vísindamanna og almennings á sögu svæðisins.
- Stuðla að fornleifarannsóknum og söfnun upplýsinga um minjar og menningarsögu auk uppmælinga á svæðinu.
- Gefa niðurstöður rannsókna út í fræði- og fræðsluritum og halda sýningar og kynningar í heimabyggð.
- Hafa aðgengilegt efni, fréttir og upplýsingar á netinu.
Formaður félagsins er Björn Samúelsson á Reykhólum, gjaldkeri er Guðrún Alda Gísladóttir fornleifafræðingur í Reykjavík (frá Gröf í Þorskafirði) og ritari er sr. Óskar Ingi Ingason í Búðardal. Félagsmenn eru núna rúmlega þrjátíu.
Aðalfundir sem eru öllum opnir hafa verið haldnir í Búðardal og í Króksfjarðarnesi. Þá hefur á aðalfundum verið fenginn fyrirlesari til að fjalla um efni sem tengist svæðinu. Oftast er þó úr nógu að moða að segja frá rannsóknum félagsins sjálfs. Næsti aðalfundur verður auglýstur fljótlega.
Meðfylgjandi mynd er úr skýrslunni um Grettislaug á Reykhólum. Þar er Steinunn Hjálmarsdóttir húsfreyja á Reykhólum og ættmóðir mjög margra við þvott í Grettislaug fyrir rúmum sextíu árum.
Hlynur Þór Magnússon, mivikudagur 09 mars kl: 06:11
Vegna ofurlítillar þekkingar á þessum efnum frá fyrri tíð leyfi ég mér að segja: Mér finnst starf þessa félags við Breiðafjörðinn á mjög stuttum tíma bæði stórkostlegt og ótrúlegt. Ekkert minna!