Stórsókn framundan í vestfirskum vegamálum
Tillaga að nýrri samgönguáætlun sem lögð var fram á Alþingi á föstudag og gerir ráð fyrir miklum vegaframkvæmdum á Vestfjörðum; sannkallaðri stórsókn í vestfirskum vegamálum. Hafist verður handa við öll þau stóru verkefni sem mjög hafa verið til umræðu á Vestfjörðum, svo sem vegagerð á Vestfjarðavegi 60 í Gufudalssveit (oft kenndur við Teigsskóg), Dýrafjarðargöng (sem sumir vinir mínir í Arnarfirði vilja raunar fremur kalla Arnarfjarðargöng!) og veg yfir Dynjandisheiði. Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir frekari vegagerð á Vestfjörðum, sem nánar verður vikið að.
Þannig hefst grein sem Einar Kristinn Guðfinnsson, forseti Alþingis og þingmaður NV-kjördæmis, sendi vefnum til birtingar undir fyrirsögninni hér að ofan. Þar segir hann einnig meðal annars:
Tökum fyrst veginn í Gufudalssveitinni, oft kenndan við Teigsskóg. Staðan á málinu er sú, að í sátt við alla hlutaðeigandi, þingmenn Norðvesturkjördæmis, sveitarstjórnarmenn og yfirvöld samgöngumála, var óskað eftir endurupptöku á umhverfismati á þessari leið. Lögð er til grundvallar ný tillaga að vegstæði, sem hafa mun sáralítil sem engin umhverfisáhrif á þessu svæði. Ætla má að niðurstaða í því máli liggi fyrir um eða upp úr miðju þessu ári. Verði niðurstaðan jákvæð – sem manni finnst við blasa – þá er hægt að leggja af stað með útboð í kjölfarið. Í tillögu að nýrri samgönguáætlun er gert ráð fyrir 2,7 milljörðum til þessa verkefnis fram til ársins 2018.
Niðurlagið er á þessa leið:
Ef við skoðum bara stóru verkefnin í Austur-Barðastrandarsýslu og Dýrafjarðargöng og Dynjandisheiði blasir þetta við:
Áætla má að þessum verkefnum verði lokið um árið 2020 eða þar um bil. Eftir þetta verða komnar heilsárssamöngur á milli norður- og suðurhluta Vestfjarða. Vegasamgöngur frá sunnanverðum Vestfjörðum inn á aðalþjóðvegakerfið verða komnar í mjög gott horf og fréttir eins og þær sem við höfum séð upp á síðkastið um flutningabíla sem sitja fastir í for og drullu heyra sögunni til.
Og síðast en ekki síst: Leiðin á milli Vestfjarða sunnanverðra og norðanverðra styttist mjög umtalsvert. Segja má að vegurinn á milli Ísafjarðar og Reykjavíkur verði viðlíka langur og leiðin er í dag milli Akureyrar og Reykjavíkur og yfir jafnmarga fjallvegi að fara.
Þetta mun opna algjörlega ný tækifæri á öllum sviðum, ekki síst í hinni ört vaxandi ferðaþjónustu og almennt bæta búsetuskilyrði á Vestfjörðum til mjög mikilla muna.
Grein Einars Kristins má lesa hér í heild og undir Sjónarmið í valmyndinni vinstra megin.