Stórtjón á höfninni
Í morgun hrundi niður stór hluti bryggjunnar á Reykhólum. Það hefur legið fyrir um all langt skeið að bryggjan er komin á tíma, en hún er síðan 1974.
Undanfarið hefur verið unnið að undirbúningi endurnýjunar stálþilsins og stækkunar bryggjunnar um leið. Það hefur falist í að dýpka og jafna botninn umhverfis bryggjuna og ef til vill hefur hún ekki þolað það.
Í viðtali við mbl.is segir Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri m.a. að ekki sé endilega um mistök að ræða og tekur fram að höfnin sé komin til ára sinna.
Hún bætir við að um mjög mikið tjón sé að ræða og bendir á að Þörungaverksmiðjan sé að landa þarna á höfninni á hverjum degi. Óljóst er hvort hún muni getað haldið áfram rekstri í bráð eða hvort að töf verði á framleiðslu hjá verksmiðjunni.
Hún tekur þó fram að Vegagerðin sé strax búin að taka málin í sínar hendur og ætli að tryggja að starfsemi geti haldið áfram á höfninni sem allra fyrst.
„Það eru að koma vinnutæki í hádeginu og fjöldi verktaka frá Vegagerðinni og þau ætla að gera við höfnina“, segir hún.
Steini, mivikudagur 27 jl kl: 17:38
Er ekki bryggjan komin til ára sinna.