Tenglar

28. apríl 2016 |

Stóru verkefnin á Vestfjörðum hafa góðan hljómgrunn

Flutningabíll á leið suður með ferskan lax fastur í drullu á Hjallahálsi.
Flutningabíll á leið suður með ferskan lax fastur í drullu á Hjallahálsi.

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga (FV) hefur samþykkt umsögn ásamt greinargerð varðandi samgönguáætlun 2015-2018, en hún byggist á vinnu samgöngunefndar FV. Formaður og framkvæmdastjóri gengu á fund umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í fyrradag og kynntu efni umsagnarinnar. Auk fulltrúa FV sátu fundinn formenn og framkvæmdastjórar Eyþings og Sambands sveitarfélaga á Austurlandi.

 

„Fundurinn stóð í um tvo tíma og það er mat mitt, að stóru verkefnin á Vestfjörðum hafa almennan hljómgrunn í umhverfis- og samgöngu-nefnd og við fáum góð orð frá félögum okkar í öðrum landshlutum,“ segir Aðalsteinn Óskarsson, framkvæmdastjóri Fjórðungssambandsins.

 

„Eitt atriði féll niður í okkar umsögn, en það eru almenningssamgöngur. Það mál var mikið rætt á fundinum og kom FV þar á framfæri sínum sjónarmiðum. Í stuttu máli, fjármagn er of naumt til málaflokksins, en þarf samt ekki neinar stórar fjárhæðir til þess að tryggja rekstur. Hitt er að endurskoðun laga um fólksflutninga hefur ekki náð fram og breytingar sem lagðar hafa verið til ganga ekki nægjanlega langt í að tryggja sérleyfi.“

 

12 ára samgönguáætlun mun koma fram á næstu vikum og þá gefst meira færi á að ræða framtíðarmál.

 

„Mikilvægast er á þessum tímapunkti að Alþingi afgreiði fjögurra ára áætlun sem fyrst. Vegagerðin hafi þá formlega afgreiðslu Alþingis, eftir 3 ára þæfing í þinginu, til þess að geta snúið sér af alvöru að undirbúningi útboða,“ segir Aðalsteinn.

 

Í umfjöllun um brýnustu verkefni í samgöngumálum á Vestfjörðum, að mati FV, eru tvö sem snúa sérstaklega að Austur-Barðastrandarsýslu (Reykhólahreppi). Um þau segir í greinargerðinni:

 

Vestfjarðavegur nr. 60 um Gufudalssveit

Endurupptaka umhverfismats á vegaframkvæmdum á Vestfjarðavegi 60 var samþykkt á síðasta ári. Fjórðungssamband Vestfirðinga væntir þess, að allir aðilar sem að því máli koma leggi sitt af mörkum til að standast lögbundna tímaramma sem veittir eru til umsagnar um mál. Fjórðungssamband Vestfirðinga skorar síðan á Alþingi að tryggja að fullu fjármögnun þessarar framkvæmdar svo ljúka megi henni fyrir árið 2020.

 

Þjónusta Baldurs

Fjórðungssamband Vestfirðinga telur mjög mikilvægt að þjónusta Baldurs verði aukin, þar sem þungaflutningar frá sunnanverðum Vestfjörðum hafa farið ört vaxandi. Vegkafli um Ódrjúgsháls og Hjallaháls á Vestfjarðavegi 60 um Gufudalssveit er án bundins slitlags og þolir vegurinn ekki þessa auknu umferð. Þessi staða hefur þegar valdið fyrirtækjum verulegu tjóni með töfum á útflutningi afurða, auk umframkostnaðar vegna þungatakmarkana.

 

Umsögn FV vegna samgönguáætlunar 2015-2018 ásamt greinargerð (pdf)

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31