Strákur að vestan og Bjarni á Fönix koma á Reykhóla
Kómedíuleikhúsið á Ísafirði (og líka í Haukadal í Dýrafirði) kemur við á Reykhólum 14. september í haustferð sinni um Vestfirði og Vesturland og sýnir tvo af einleikjum sínum, sem nefnast Jón Sigurðsson strákur að vestan og Bjarni á Fönix. Í leikferðinni verður sýnt á sextán stöðum á sextán dögum. Leikirnir eru sýndir hvor á eftir öðrum en á milli þeirra er fimmtán mínútna hlé og tekur hvor leikur 40-45 mínútur. Sýnt verður á Báta- og hlunnindasýningunni á Reykhólum og miðaverð er aðeins krónur 1.900. Elfar Logi Hannesson leikur Jón Sigurðsson frá Hrafnseyri en Ársæll Níelsson leikur Bjarna á Fönix og leikstýra þeir hvor öðrum. Elfar Logi samdi einleikinn um Jón Sigurðsson en hann og Ársæll í sameiningu sömdu einleikinn um Bjarna á Fönix.
Jón Sigurðsson strákur að vestan
Jón Sigurðsson - Jón forseti - var nefndur „sómi Íslands, sverð þess og skjöldur“. Í leiknum er reynt að gera nokkra grein fyrir því hver þessi maður var og hvar hann var upprunninn. Hvað var það sem mótaði þennan pilt og gerði hann að öflugum talsmanni þjóðarinnar? Í þessu verki fá leikhúsgestir að kynnast piltinum Jóni Sigurðssyni og æskuárum hans á Hrafnseyri. Verkið er sérstaklega samið í tilefni þess að liðin eru 200 ár frá fæðingu Jóns Sigurðssonar.
Bjarni á Fönix
Bjarni Þorlaugarson skipherra á skútunni Fönix á Þingeyri háði frækinn bardaga við hátt í þrjátíu Fransmenn í Dýrafirði um miðja nítjándu öld. Bardaginn stóð yfir í fjóra klukkutíma - að vísu gerðu menn stutta pásu í miðjum átökum - og gekk Bjarni óskaddaður af vettvangi. Skömmu síðar fannst sjórekið lík Fransmanns og voru uppi kenningar um að Bjarni hefði orðið hans bani. Mál var dómtekið og þurfti Bjarni þá að spyrja sig eftirfarandi samviskuspurningar: Drap ég mann eða drap ég ekki mann?
Elfar Logi Hannesson
Elfar Logi Hannesson er frá Bíldudal þar sem foreldrar hans og fjölskylda hafa rekið veitingastaðinn Vegamót í 25 ár. Rætur hans á Bíldudal standa djúpt en langafi hans var Hannes Stephensen Bjarnason kaupmaður þar. Elfar Logi stundaði ungur leiklistarnám í Kaupmannahöfn og annaðist Stundina okkar í Sjónvarpinu eftir heimkomuna þangað til hann fluttist aftur vestur á firði og stofnaði Kómedíuleikhúsið fyrir fjórtán árum. Hann hefur samið einn eða með öðrum marga einleiki og flutt þá víða, bæði hérlendis og erlendis. Þekktastur er einleikurinn Gísli Súrsson en sýningar á honum eru komnar nokkuð á þriðja hundrað. Árið 2005 var Elfar Logi útnefndur Bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar.
Ársæll Níelsson
Ársæll Níelsson er frá Tálknafirði (þegar það liggur fyrir munu væntanlega margir gera sér grein fyrir því vegna nafnsins hverra manna hann er). Hann vakti fyrst athygli á leiksviði þegar hann stundaði nám í Menntaskólanum á Ísafirði og tók mikinn þátt í leikstarfinu þar.
Hjónin bæði Bæjarlistamenn Ísafjarðarbæjar
Marsibil G. Kristjánsdóttir myndlistar- og fjöllistakona, eiginkona Elfars Loga, annaðist leikmyndir og búninga eins og oft áður. Hún var útnefnd Bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar árið 2009 og verður að telja næsta sérstakt að hjón skuli hljóta slíkan titil hvort í sínu lagi.
Viðbót:
Síðan verða leikirnir sýndir í Kaupmannahöfn
Kómedíuleikhúsinu hefur verið boðið að sýna í Kaupmannahöfn einleikina um Jón Sigurðsson og Bjarna á Fönix, sem hugsanlega hefur verið hálfbróðir Jóns. „Við fengum boð frá Íslendingafélaginu í Kaupmannahöfn um að koma, en það vill heiðra minningu Jóns. Við þiggjum þetta góða boð og ætlum að skella okkur strax að haustleikferð leikhússins lokinni og munum sýna í Jónshúsi í Kaupmannahöfn fyrstu helgina í október“, segir Elfar Logi Hannesson leikhússtjóri. Hann segir það sérlega ánægjulegt að geta sýnt verkið um Jón í Kaupmannahöfn á árinu þegar 200 ár eru liðin frá fæðingu hans. Jón Sigurðsson var búsettur í Kaupmannahöfn alla sína fullorðinstíð en kom jafnan heim til að sitja þing. Á þeim tíma starfaði Alþingi á sumrin en aðeins annað hvert ár.