Tenglar

18. nóvember 2009 |

Strandsvæði - sóknarfæri fyrir vestfirsk samfélög

Svifdrekamynd: Árni Geirsson.
Svifdrekamynd: Árni Geirsson.
Annar fundurinn í fjögurra funda röð um nýtingaráætlun fyrir strandsvæði við Vestfirði verður haldinn í íþróttahúsinu á Reykhólum á föstudagsmorgun, 20. nóvember kl. 10. Fyrsti fundurinn verður á veitingastaðnum Malarkaffi á Drangsnesi annað kvöld. Val fyrsta fundarstaðar er ekki tilviljun, segir í tilkynningu um fundina. „Hér er hrint af stað verkefni, hinu fyrsta sinnar tegundar á Íslandi, þar sem sjónum er beint að nýtingu strandsvæðisins og því er viðeigandi að sá fundur sé haldinn á fjörukambi við mynni Steingrímsfjarðar.“ Þessir fundir eru öllum opnir sem áhuga hafa.

 

Fundir og svæðaafmörkun þeirra er annars sem hér segir:

- Strandasýsla, 19. nóvember kl. 20. Veitingastaðurinn Malarkaffi, Drangsnesi.

- Reykhólahreppur, 20. nóvember kl. 10. Íþróttahúsið á Reykhólum.

- Vestur-Barðastrandarsýsla, 20. nóvember kl. 17. Skor, þróunarsetur, Patreksfirði.

- Ísafjarðarsýsla, 25. nóvember kl. 20. Þróunarsetur Vestfjarða, Árnagötu, Ísafirði.

 

Strandlengja Vestfjarða, að meðtöldum eyjum og hólmum, er um einn þriðji hluti af strandlengju Íslands. Aukinn áhugi er fyrir nýtingu strandsvæða við Ísland og veruleg tækifæri er þar að finna, til framtíðar litið. Stjórnsýsla strandsvæðis Íslands er með brotakenndum hætti, áhrif samfélaganna á þróun mála eru lítil og aukin hætta er á hagsmunaárekstrum eftir því sem fram í sækir. Vestfirsk sveitarfélög hafa því ákveðið, í samvinnu við Teiknistofuna Eik og Háskólasetur Vestfjarða, að hrinda af stað verkefni sem hefur það meginmarkmið að gera samþætta nýtingaráætlun fyrir strandsvæði Vestfjarða og samræma stjórnun og nýtingu þessara svæða í samvinnu við íbúa og hagsmunaaðila. Verkefnið verður hið fyrsta sinnar tegundar á Íslandi, þar sem greina á nýtingu strandsvæðis innan heils landshluta.

 

Fjórðungssamband Vestfirðinga, í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða, Teiknistofuna Eik og Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða, boðar þess vegna til þessara opnu funda á Vestfjörðum um nýtingu strandsvæðisins við Vestfirði. Þessir fundir eru fyrsti hluti stærra verkefnis sem hefur að meginmarkmiði að gera samþætta nýtingaráætlun fyrir strandsvæði Vestfjarða og samræma stjórnun og nýtingu þessara svæða í samvinnu við íbúa og hagsmunaaðila. Strandsvæðið nær út fyrir það svæði sem nú er skipulagsskylt.

 

Á fundunum verður verkefnið nánar kynnt og upplýsingum jafnframt safnað. Lagt verður fram kort af strandsvæðinu og óskað eftir upplýsingum um núverandi nýtingu þess. Einnig verður óskað eftir tilnefningu fulltrúa í héraði vegna þátttöku í framhaldsvinnu verkefnisins.

 

Hér fyrir neðan er samantekt Aðalsteins Óskarssonar, framkvæmdastjóra Fjórðungssambands Vestfirðinga, um þetta verkefni.

 

 

Forsendur

 

Forsendur byggðar á Vestfjörðum hafa frá upphafi verið auðlindir sjávar og möguleikar til samgangna á sjó. Landfræðilegar aðstæður hafa skapað vestfirsku samfélagi sérstöðu en jafnframt sett því takmörk um annars konar landnýtingu og tækifæri til sjálfsbjargar og atvinnuþróunar. Umræða um framtíðarmöguleika á Vestfjörðum hefur því miðað að því að komast framhjá þessum takmörkunum. Áhersla hefur verið lögð á að íbúar og atvinnulíf standi jafnfætis við aðra landshluta hvað grunngerð samfélagsins snertir, svo sem í samgöngumálum.

 

Með framangreint að viðmiði má benda á, að þrátt fyrir samdrátt í sjávarútvegi hafa á síðustu árum skapast aukin tækifæri er byggja á landfræðilegum aðstæðum og auðlindum hafs og strandsvæða. Hér má nefna fiskveiðar, fiskeldi, þangslátt, ferðaþjónustu, útivist, efnistöku af hafsbotni, landfyllingar, vegagerð, flutninga, íbúðabyggingar (sjávarlóðir) og aðra mannvirkjagerð. Til lengri tíma litið, þá eru hugsanlega möguleikar á virkjun sjávarstrauma og þróun í ræktun staðbundinna sjávardýra sem vekja vonir um ræktun þeirra á hafsbotni eða með hjarðeldi. Viðhorf til nýtingar hafsins gæti því breyst frá því að vera viðhorf veiðimannsins yfir í viðhorf bóndans til akuryrkju. Tækifæri landsvæðis eins og Vestfjarða með hátt í 1/3 strandlengjunnar við Ísland verða því að teljast mikil.

 

Stjórnsýslan

 

Þróun á strandsvæðinu og þeir framtíðarmöguleikar sem þar geta legið kalla fram spurningar: Hvernig á að stýra þróun mála á þessu svæði? Hverjir eiga að koma að ákvarðanatöku og hvernig geta samfélögin á Vestfjörðum haft áhrif á þróun mála?

 

Lögsaga sveitarfélaganna, m.t.t. skipulags, nær einungis 115 metra frá stórstraumsfjöruborði. Gildir þetta einnig um mörk hólma og eyja sem tilheyra bújörðum. Þetta þýðir í raun að allir firðir og víkur utan þessara marka eru án skipulagsskyldu (að frátöldu nýlegu lagaákvæði um olíuleit og olíuvinnslu). Aðkoma ríkisvalds er hins vegar með þeim hætti að starfsemi á strandsvæðinu er undir eftirliti og eða forræði fimm ráðuneyta og stofnana þeirra. Í einfaldri framsetningu má segja að hafsbotninn frá lögsögumörkum sveitarfélaganna að mörkum efnahagslögsögu Íslands sé í raun þjóðlenda ríkisins. Lagarammi er varðar vatnsmassann frá hafsbotni að yfirborði er ekki síður flókinn. Þar eru ýmsar takmarkanir á nýtingu auðlinda sem þar er að finna og leyfisveitingar um staðbundna starfsemi eru óljósar. Má því segja yfirsýn um heildarnýtingu sé brotakennd. Telja verður að við þessar aðstæður sé hætta á hagsmunaárekstrum, einkum samfara aukinni og fjölbreyttari nýtingu.

 

Sveitarfélög á Vestfjörðum hafa um nokkurn tíma fjallað um stöðu sveitarfélaga gagnvart strandsvæðinu og þá undir umræðu um skipulagsmál (gerð svæðisskipulags) og framtíðarsýn á Vestfjörðum. Hluti 54. Fjórðungsþings Vestfirðinga sem haldið var þann 4. og 5. september sl. var helgaður þessu máli og í ályktun þingsins undir heitinu „Vestfirðir í sókn“ var gerð eftirfarandi samþykkt:

 

Sveitarfélög á Vestfjörðum óska eftir samstarfi við ríkisvaldið um skipulag strandsvæðis Vestfjarða. Það er mat Fjórðungsþings að Vestfirðir séu kjörið svæði til þess að þróa aðferðir og reglur í þessum mikilvæga málaflokki, auk þess sem þar má finna sértæka þekkingu og fjölbreyttar rannsóknir á þessu sviði.

 

Hér er undirliggjandi sú skoðun að skipulag á stjórnun strandsvæðisins sé of laust í reipunum og yfirsýn sé takmörkuð um nýtingu þess, ekki síst í ljósi aukinnar ásóknar. Í annan stað er lítið vægi samfélaga til að hafa áhrif á þróun mála. Það blasi við að möguleikar samfélaga líkt og á Vestfjörðum til að hafa áhrif á þróun mála í „túnfæti“ þeirra eru ólíkir eftir því hvort horft er til lands eða sjávar. Sveitarfélögin verða því að koma hér að með afgerandi hætti.

 

Nýtingaráætlun fyrir strandsvæði Vestfjarða

 

Fjórðungssamband Vestfirðinga hefur þessu ári unnið að undirbúningi verkefnis sem nefnt er nýtingaráætlun fyrir strandsvæði Vestfjarða. Verkefnið er unnið í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða og Teiknistofuna Eik á Ísafirði. Það nýtur jafnframt stuðnings frá Vaxtarsamningi Vestfjarða. Hér er horft til þekkingar sem er að byggjast upp í meistaranámi í haf- og strandsvæðastjórnun og þekkingu á skipulagsvinnu. Fyrsta skref verkefnisins verður skrásetning á núverandi nýtingu strandsvæðisins. Slík skráning er talin grundvöllur fyrir næsta skref, þ.e. sjálfa nýtingaráætlunina fyrir strandsvæði.

 

Fjórðungssamband Vestfirðinga mun því ásamt samstarfsaðilum standa fyrir opnum vinnufundum á Vestfjörðum þar sem hafist verður handa við það. Fundirnir eru opnir öllum sem hafa áhuga og eða hagsmuni er varða nýtingu strandsvæðisins. Verkefnið verður kynnt nánar og síðan verður unnið í hópavinnu að skráningu á núverandi nýtingu. Afmörkun þess svæðis sem unnið er með hefur ekki verið ákveðin endanlega en það ræðst af niðurstöðu vinnufunda. Til eru nokkrar erlendar fyrirmyndir í þessum efnum.

 

Dæmi um aðila og hagsmuni þeirra:

 

Sjómenn: Veiðislóð.

Útgerðarmenn: Veiðislóð, fiskveiðiréttindi.

Fiskeldismenn: Staðsetning eldis/- ræktunarstöðva.

Fiskverkendur: Gæði á fiski.

Iðnaður: Hafsbotninn, þari, kalkþörungasetlög, malarnám.

Hlunnindabændur og eigendur sjávarjarða: Æðarrækt, grásleppuveiði, reki, þangsláttur.

Ferðaþjónustuaðilar: Sjávarsýn, gönguferðir, sjóferðir (hvalir, fuglar), kajak, köfun.

Sveitarfélög: Byggingarsvæði, hafnarstarfsemi, vegagerð og veitustarfsemi.

Almenningur sem nýtir strandsvæðið til frístunda, gönguferðir, kajak, köfun o.fl.

 

Síðar er stefnt að fundum með rannsóknastofnunum, opinberum stofnunum og stofnunum sveitarfélaga sem hafa málefni strandsvæðisins til umfjöllunar.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31