Tenglar

24. júlí 2014 | vefstjori@reykholar.is

Sturluhátíð í Tjarnarlundi

1 af 2

Í tilefni þess að 800 ár eru liðin frá fæðingu sagnaritarans mikla Sturlu Þórðarsonar verður Sturluhátíð haldin núna á sunnudag, 27. júlí, í Tjarnarlundi í Saurbæ. Dalabyggð stendur að hátíðinni, en Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti verður heiðursgestur. Samkoman hefst kl. 13.30 með setningarávarpi Sveins Pálssonar sveitarstjóra Dalabyggðar og ávörpum Einars K. Guðfinnssonar forseta Alþingis og Olemic Tommessen forseta norska Stórþingsins. Guðrún Nordal forstöðumaður stofnunar Árna Magnússonar flytur erindi um arfleifð Sturlu Þórðarsonar og Einar Kárason rithöfundur flytur efni um Sturlu sem hann kallar Hann vissi ég alvitrastan og hófsamastan.

 

Elísabet Haraldsdóttir menningarráðunautur fjallar um Sturluþing barna sem efnt verður til í samvinnu við barnaskóla á Vesturlandi næsta vetur. Þá gera Halla Steinólfsdóttir bóndi í Fagradal og Sumarliði Ísleifsson sagnfræðingur grein fyrir efninu Dalirnir og Sturla, framtíðarsýn. Steindór Andersen og Hilmar Örn Hilmarsson flytja rímur. Samkomunni í Tjarnarlundi lýkur upp úr kl. þrjú með lokaorðum Sigurðar Þórólfssonar bónda í Innri-Fagradal.

 

Eftir samkomuna í Tjarnarlundi verður farið að Staðarhóli í Saurbæ þar sem Sturla bjó og þar fjallar Magnús A. Sigurðsson fornleifafræðingur um hugsanlegar rannsóknir á Staðarhóli.

 

Upplýsingar um gistimöguleika í Dölum og Reykhólahreppi má fá á upplýsingamiðstöð Dalabyggðar í síma 434 1441 og upplýsingamiðstöð Reykhólahrepps í síma 434 7830.

 

Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðunni http://sturla800.wix.com/sturlathordarson, hjá Svavari Gestssyni (gestsson.svavar@gmail.com), Þórunni Maríu Örnólfsdóttur (tho27@hi.is, 845 6676) og á skrifstofu Dalabyggðar.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31