Tenglar

2. september 2015 |

Styður við nýjar hugmyndir og atvinnusköpun

María Maack.
María Maack.

María Maack á Reykhólum tók fyrir nokkru til starfa fyrir Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða (Atvest) og hleypur þar í skarðið fyrir Viktoríu Rán Ólafsdóttur á Hólmavík, sem verður í framhaldsnámi í eitt ár. María hefur aðsetur í bankaherberginu í Stjórnsýsluhúsinu á Reykhólum (430 3205) á þriðjudögum, fimmtudögum og föstudögum en að jafnaði á Hólmavík (410 7700) á mánudögum og miðvikudögum (mmaaria@atvest.is).

 

Í tilkynningu frá Atvest segir:

 

María hefur starfað við rannsóknir, verkefnastjórnun og almannatengsl fyrir Íslenska NýOrku. Einnig á hún sér langa sögu í þróunarverkefnum í ferðaþjónustu og umhverfismálum. María hefur MS-próf í umhverfisstjórnun frá IIIEE í Lundarháskóla og BSc í líffræði frá Háskóla Íslands og í Gautaborg með áherslu á sjávarvistfræði. Að auki er hún að leggja lokahönd á doktorsverkefni í visthagfræði um heildaráhrif þess að nota rafmagn og vetni í íslenskum landsamgöngum í stað olíu. María hefur reynslu af alþjóðlegum samskiptum og á samvinnu við fyrirtæki og sveitarfélög á Íslandi. Hún hefur kennt á öllum skólastigum og verið leiðsögumaður um Ísland á sumrum, enda mikill náttúruunnandi og tungumálamanneskja.

 

Í samtali við Reykhólavefinn kveðst María hafa verið mikið á þeytingi í tengslum við vinnuna síðan hún byrjaði, til dæmis í Reykjavík, í Trékyllisvík og á Ísafirði. 

 

„Starfið mitt er fjölbreytt. Það er fólgið í því að efla atvinnu og styðja við nýjar viðskiptahugmyndir um ferðaþjónustu, sjávarnytjar og menningu, svo eitthvað sé nefnt. Ég get tengt fólk við sjóði og stofnanir, stutt það í að móta hugmyndir og viðskiptaáætlun og leiðbeint við umsóknir og samstarfsverkefni. Mér sýnist að Atvest ætli að beina mér inn á brautir umhverfis- og orkumála. Fyrir stuttu kallaði ég til dæmis til samráðsfundar um notkun jarðvarma á Reykhólum til að skoða stöðuna og finna út hvað þyrfti að gerast til að nýta varmann betur og hliðra til fyrir nýjum notanda. Það er nefnilega gert ráð fyrir sjávarböðum með þörungaívafi í hinu nýja deiliskipulagi Reykhóla,“ segir María.

 

 

Nokkur helstu atriðin varðandi Atvest og hlutverk þess

 

Atvest er í eigu 110 hluthafa, en stærstu eigendur eru Byggðastofnun og Fjórðungssamband Vestfirðinga.

 

Verkefni Atvest eru eftirfarandi:

  • Tekur þátt í og er leiðandi við mótun atvinnustefnu á Vestfjörðum.
  • Hefur frumkvæði að leit að sóknarfærum í atvinnulífinu.
  • Stendur fyrir sérstökum rannsóknar- og þróunarverkefnum sem tengjast atvinnutækifærum.
  • Aðstoðar fyrirtæki, einstaklinga, sveitarfélög, félagasamtök og stofnanir við að kanna nýjungar í atvinnurekstri.
  • Veitir fyrirtækjum og einstaklingum almenna viðskiptaráðgjöf, svo sem ráðgjöf varðandi vöruþróun, fjármögnun, markaðssetningu og rekstur.
  • Hefur frumkvæði að samvinnu við aðila í atvinnulífinu og eflir samstarf milli þeirra.
  • Er tengiliður milli tækni- og þjónustustofnana atvinnulífsins og þeirra sem eru í atvinnurekstri eða starfa að atvinnumálum.
  • Miðlar upplýsingum um tækni, rekstur og fjármögnunarmöguleika og aðstoðar við gerð umsókna og lána.
  • Eflir fagþekkingu og stjórnunartækni með námskeiðahaldi og annarri fræðslustarfsemi, til dæmis um öryggis- og umhverfismál.

Þannig styður Atvest þá sem vilja þróa hugmyndir áfram til framkvæmdar.

 

Við erum ekki:

  • Styrkjasjóður
  • Félagsþjónusta
  • Vinalína
  • 112

En allir þeir sem hafa áhuga á nýjum atvinnuskapandi hugmyndum eru velkomnir til að ræða málin.

 

Athugasemdir

María Maack, fimmtudagur 03 september kl: 11:53

Takk fyrir að koma þessu á framfæri, Hlynur. Ég sit á Reykhólum við síma 4 303 205. Verið velkomnir sveitungar ef þið gangið með hugmyndir!

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31