Stykkishólmur hlýtur evrópska ferðaviðurkenningu
EDEN-gæðaáfangastaðir
„EDEN-gæðaáfangastaðir“ - European Destinations of Excellence - er samevrópskt verkefni sem Ferðamálastofa heldur utan um fyrir Íslands hönd. Markmið þess er að vekja athygli á gæðum, fjölbreytileika og sameiginlegum einkennum evrópskra áfangastaða og kynna til sögunnar nýja, lítt þekkta áfangastaði í Evrópu þar sem áhersla er lögð á ferðaþjónustu í anda sjálfbærni.
Árleg samkeppni
Árlega er haldin samkeppni í hverju aðildarlanda EDEN um gæðaáfangastaði. Að baki liggur nýtt þema á hverju ári. Með því að hafa þau breytileg er leitast við að gefa sem flestum gerðum af stöðum og ferðaþjónustu kost á þátttöku. Þema þessa árs var „Ferðaþjónusta og endurnýjun svæða“ (Tourism and Regeneration of Physical Sites). Athyglinni er beint að svæðum sem gengið hafa í endurnýjun lífdaga og fengið nýtt hlutverk sem ferðamannastaðir eftir að hafa áður gegnt einhverju öðru og óskyldu hlutverki.
Vestfirðir voru fyrsti EDEN-áfangastaður Íslands
Ísland tók í fyrsta sinn þátt í EDEN-verkefninu á síðasta ári þegar samkeppnin var haldin í fjórða sinn. Þema ársins var „Sjálfbær ferðaþjónusta tengd vatni“ (Sustainable Aquatic Tourism). Vestfirðir voru þá meðal þeirra rúmlega tuttugu evrópsku staða eða svæða sem útnefningu hlutu.