Tenglar

2. febrúar 2013 | vefstjori@reykholar.is

Styrkur til endurbyggingar frystihússins í Flatey

Frá vinnu við endurbygginguna í ágúst á liðnu sumri. Ljósm. Björn Samúelsson.
Frá vinnu við endurbygginguna í ágúst á liðnu sumri. Ljósm. Björn Samúelsson.
1 af 2

Veittur hefur verið 3,7 milljóna króna styrkur úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til endurbyggingar frystihússins gamla í Flatey á Breiðafirði við fyrstu úthlutun þessa árs. Félagið Þrísker ehf. stendur að framkvæmdunum sem unnið hefur verið að síðustu sumur. Markmið styrkveitingarinnar er „m.a. að vernda sögu- og menningarminjar í Flatey og bæta þjónustu við ferðamenn“. Hún er liður í uppbyggingu EDEN-gæðaáfangastaða ferðamanna.

 

Frystihúsið í Flatey var byggt árið 1950. Síðast var í húsinu sjávartengd starfsemi árið 1996 þegar þar voru söltuð grásleppuhrogn.

 

Tilkynnt var fyrir helgina um fyrstu úthlutun styrkja úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða af þremur á þessu ári. Alls fengu 44 verkefni styrk að þessu sinni, samtals rúmlega 150 milljónir króna. Á næstu þremur árum mun sjóðurinn eflast verulega þar sem hann mun fá árlega 500 milljónir aukalega í tengslum við fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar „til að standa fyrir löngu tímabæru viðhaldi, gróðurvernd og uppbyggingu við ferðamannastaði“.

 

Alls fengu fimm verkefni á Vestfjörðum styrk að þessu sinni. Hin fjögur eru:


Framkvæmdasjóður Skrúðs – Þjónustuhús við Skrúð í Dýrafirði

5.000.000 kr. styrkur til hönnunar og framkvæmda við þjónustuhús fyrir ferðamenn við Skrúð í Dýrafirði. Markmið styrkveitingar er að bæta innviði fyrir ferðaþjónustu við Skrúð í Dýrafirði, stuðla að verndun menningarminja og lengingu ferðamannatímans á svæðinu.

 

Ferðaþjónustan Reykjanes – Reykjanes – Vatnavinir Vestfjarða

2.500.000 kr. styrkur til hönnunar og framkvæmda við steinhlaðin sjóböð, útsýnisglervegg, göngustíga og merkingar í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Markmið styrkveitingar er m.a. að vernda náttúru og menningarminjar í Reykjanesi, bæta innviði fyrir ferðaþjónustu og styrkja svæðið sem heilsárs áfangastað. Styrkurinn er liður í uppbyggingu EDEN-gæðaáfangastaða ferðamanna á vegum Vatnavina Vestfjarða.

 

Vesturbyggð og Umhverfisstofnun – Fullnaðarhönnun áningarstaða við Bjargtanga

1.500.000 kr. styrkur til fullnaðarhönnunar áningarstaða við Bjargtanga á grundvelli vinnu við deiliskipulag Látrabjargs, sem er í vinnslu. Markmið styrkveitingar er m.a. að vernda náttúru- og menningarminjar, bæta innviði fyrir ferðaþjónustu, tryggja öryggi ferðamanna og lengja ferðamannatímann. Styrkurinn er liður í undirbúningi vegna fyrirhugaðs þjóðgarðs.

 

Ísafjarðarbær – Göngustígakerfi Ísafjarðarbæjar – Hönnun og skipulag

750.000 kr. styrkur til að kortleggja og skipuleggja kerfi gönguleiða um sveitarfélagið Ísafjarðarbæ með tengingum við næstu sveitarfélög. Markmið styrkveitingar er m.a. að byggja upp innviði og skilyrði fyrir náttúrutengda ferðaþjónustu á Ísafirði og aukin tengsl milli byggðakjarna á Vestfjörðum, með áherslu á gönguferðamennsku. Styrkurinn fellur að markmiðum um uppbyggingu á samræmdu kerfi göngu-, hjóla- og reiðleiða (svokölluðu Landsneti ferðaleiða) um landið.

 

Verkefnin 44 sem fengu styrk að þessu sinni og lýsing á þeim (pdf)

28.02.2012 Ferðaþjónusta: EDEN-kynning í Bjarkalundi

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31