Tenglar

8. desember 2008 |

Styrkur til fornleifaskráningar í Oddbjarnarskeri

Oddbjarnarsker. Myndin er fengin af vef Breiðafjarðarnefndar. Sjá nánar neðst í meginmáli.
Oddbjarnarsker. Myndin er fengin af vef Breiðafjarðarnefndar. Sjá nánar neðst í meginmáli.
1 af 2

Lokið er úthlutun styrkja úr Þjóðhátíðarsjóði vegna ársins 2009. Umsóknir að þessu sinni voru 161 og sótt var um styrki samtals að fjárhæð 229 milljónir króna. Úthlutað var 56 styrkjum að fjárhæð samtals 30,4 milljónir króna. Þar af eru veittir 10 styrkir að fjárhæð samtals 6,2 milljónir króna til verkefna á Vestfjarðakjálkanum og í héruðunum kringum Breiðafjörð. Meðal þeirra er hæsti styrkurinn sem veittur var, tvær milljónir króna til endurreisnar Listasafns Samúels í Selárdal við Arnarfjörð. Fornleifafélag Barðstrendinga og Dalamanna (forsvarsmenn Björn Samúelsson og Uggi Ævarsson) fékk kr. 400 þúsund til þess að skrá fornleifar í Oddbjarnarskeri og flétta skráninguna saman við eyjamenningu Breiðafjarðar.

 

Styrkirnir tíu til verkefna á Vestfjarðakjálkanum og í héruðunum kringum Breiðafjörð eru sem hér segir:

 

Félag um endurreisn Listasafns Samúels í Selárdal (Ólafur J. Engilbertsson) kr. 2.000.000.

Gera fokhelt endurgert íbúðarhús Samúels þar sem verður íbúð og vinnuaðstaða fyrir lista- og fræðimenn ásamt lítilli sölubúð.

 

Átthagafélag Sléttuhrepps (Þórólfur Jónsson) kr. 800.000.

Gera við kirkjuna á Stað í Aðalvík, sem byggð var 1904 og því friðuð samkvæmt þjóðminjalögum.

 

Minjasjóður Önundarfjarðar (Jóhanna Kristjánsdóttir) kr. 500.000.

Skrá muni og bækur kaupmannshjóna að Hafnarstræti 3-5 á Flateyri.

 

Sjóminjasafnið í Sjómannagarðinum á Hellissandi (Skúli Alexandersson) kr. 500.000.

Byggja yfir áraskipin Blika og Ólaf Skagfjörð og endurbyggja það síðarnefnda.

 

Fornleifafélag Barðstrendinga og Dalamanna (Björn Samúelsson og Uggi Ævarsson) kr. 400.000.

Skrá fornleifar í Oddbjarnarskeri og flétta síðan skráninguna saman við eyjamenningu Breiðafjarðar.

 

Hollvinasamtök Dalabyggðar (Helga H. Ágústsdóttir) kr. 400.000.

Setja upp fimm söguskilti á völdum stöðum í Dalabyggð.

 

Guðrún A. Gunnarsdóttir kr. 400.000.

Gera skilti sem í máli og myndum greinir frá sögu síldarvinnslu við Ingólfsfjörð á Ströndum á árunum 1915-1951.

 

Minja- og handverkshúsið Kört í Trékyllisvík (Valgeir Benediktsson) kr. 400.000.

Setja upp sýningu um ævi og störf  Þorsteins Þorleifssonar.

 

Framfarafélag Snæfellsbæjar, Hellissands- og Rifsdeild (Drífa Skúladóttir) kr. 300.000.

Lagfæra Gufuskálavör, sem er forn vör á Snæfellsnesi, friðlýst árið 1969.

 

Penna ehf. (Steinunn Hjartardóttir) kr. 200.000.

Endurgera skjaldarmerki sýslnanna á Vestfjörðum frá grunni úr varanlegu vatnsheldu efni og varðveita þau þannig áfram á framhlið Hótels Flókalundar.

 

_______________________________

 

Tilgangur Þjóðhátíðarsjóðs er að veita styrki til stofnana og annarra aðila, er hafa það verkefni að vinna að varðveislu og vernd þeirra verðmæta lands og menningar, sem núverandi kynslóð hefur tekið í arf. Við það skal miðað, að styrkir úr sjóðnum verði viðbótarframlög til þeirra verkefna, sem styrkt eru, en verði ekki til þess að lækka önnur opinber framlög til þeirra eða draga úr stuðningi annarra við þau. Að þessu sinni var úthlutað úr sjóðnum í þrítugasta og annað skiptið.

 
Í stjórn Þjóðhátíðarsjóðs sitja nú: 
- Margrét Bóasdóttir, söngkona, formaður, skipuð af forsætisráðherra.

- Eiríkur Guðnason, seðlabankastjóri, varaformaður, tilnefndur af Seðlabanka Íslands.

- Jónína Michaelsdóttir, rithöfundur,

- Margrét K. Sverrisdóttir, varaborgarfulltrúi, og

- Björn Teitsson, magister, sem kjörin eru af Alþingi.

Ritari sjóðsstjórnar er Sigfús Gauti Þórðarson, lögfræðingur.

 

_______________________________

 

Nánar hér um Þjóðhátíðarsjóð og úthlutun vegna ársins 2009.

 

Meðfylgjandi myndir af og úr Oddbjarnarskeri eru af vef Breiðafjarðarnefndar, teknar í vettvangsferð nefndarinnar árið 2005. Fleiri myndir úr þeirri ferð má skoða hér.

 

Oddbjarnarsker er um 10 kílómetra vestur af Flatey á Breiðafirði og var fyrrum einhver helsta verstöð Breiðafjarðar. Á vertíð var þar mikill fjöldi fólks enda voru þar tugir verbúða og tugum árabáta var haldið þaðan til fiskjar. Þar var hins vegar ekki búskapur eða mannvist utan vertíðar. Skerið er í raun skeljasandsdyngja með stórvöxnu melgresi. Þar er jarðhiti. Vegghleðslur í Oddbjarnarskeri munu að mestu horfnar á kaf í sandinn og melgresið. Útræði þaðan lagðist af þegar tími vélbátanna gekk í garð fyrir liðugri einni öld.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30