Tenglar

20. apríl 2013 | vefstjori@reykholar.is

Styrkur til kennsluefnis í bátasmíði

Eggert Björnsson sjóklæddur við Vinfast á Reykhólum sumarið 2009.
Eggert Björnsson sjóklæddur við Vinfast á Reykhólum sumarið 2009.

Meðal þeirra sem fengu verkefnastyrki frá Menningarráði Vestfjarða að þessu sinni er bátasmiðurinn Eggert Björnsson á Patreksfirði. Honum voru veittar 400.000 krónur og nefnist verkefnið Bátasmíði - arfur fortíðar. Þarna er um að ræða gerð kennslubókar í smíði báta af þeirri gerð hlunnindabáta sem tíðkaðist ekki síst í Breiðafjarðareyjum á fyrri hluta síðustu aldar og raunar löngu fyrr. Eggert hefur nánast frá upphafi verið virkur í Félagi áhugamanna um um bátasafn Breiðafjarðar, sem jafnframt hlaut frá Menningarráði rekstrarstyrk upp á 1.200 þúsund krónur eins og hér var greint frá í gær.

 

Enda þótt Eggert sé einn skrifaður fyrir þessum styrk segir hann að þarna eigi ekki síður hlut að máli Hafliði Aðalsteinsson félagi hans, skipasmiður úr Hvallátrum á Breiðafirði. „Fróðleikurinn kemur frá Hafliða en ég kem þeim fróðleik síðan í orð og teikningar,“ segir Eggert.

 

Bátasmiðirnir í Félagi áhugamanna um bátasafn Breiðafjarðar smíðuðu á sínum tíma á Reykhólum bátinn Vinfast, sem er endurgerð bátsins Bjargar eða Staðarskektunnar svokölluðu á Stað á Reykjanesi. Um það verk gerði Ásdís Thoroddsen kvikmyndagerðarmaður heimildamyndina Súðbyrðingur - saga báts. Síðar héldu þeir félagar námskeið á Reykhólum í smíði slíkra báta og síðustu misseri hafa þeir verið með námskeið syðra þar sem nýr - gamall - sex metra bátur er í smíðum. Eggert segir að sá bátur geti verið fulltrúi báta í upphafi vélbátaaldar hérlendis - hlunnindabátur í anda gömlu breiðfirsku bátanna.

 

Þeim sem tekið hafa þátt í námskeiðunum fannst sárvanta námsgögn og þess vegna var hafist handa við ritun kennslubókar með vinnuteikningum. Það er til þess verks sem umræddur styrkur er veittur.

 

Frumgerð kennslubókarinnar hefur þegar litið dagsins ljós og hefur verið notuð á námskeiðunum. Að sögn Eggert er þó mikið óunnið í þessu efni og kaflar um einstaka þætti smíðanna enn óskrifaðir.

 

Fyrirhugað var að Félag áhugamanna um bátasafn Breiðafjarðar kæmi sér upp skemmu við Reykhólahöfn. Efnið var komið á staðinn (viðirnir úr gamla flugskýlinu á Patreksfjarðarflugvelli) en málið komst ekki lengra. Á lóðinni sem ætluð var húsi safnsins hefur núna í vetur risið hús Íslenska saltfélagsins. „Við höfum bara ekki fengið pening í það, kannski verður að fara að hugsa þetta allt saman upp á nýtt.“ segir Eggert. Hann tekur þó skýrt fram, að eindreginn vilji sé til þess eftir sem áður að bækistöðvar félagsins verði á Reykhólum.

 

Sjá einnig - ítarefni:

27.11.2012 Hús Bátasafns Breiðfirðinga í biðstöðu

25.03.2012 Nýr bátur í anda gömlu hlunnindabátanna

10.03.2012 Þetta er svo andskoti gaman

19.05.2010 Námskeið um viðhald og endursmíði gamalla trébáta

08.06.2008 Vinfastur: Lentu í sjónum í reynslusiglingunni

06.06.2008 Bátasafn Breiðafjarðar leitar eftir liðsauka

 

Vefur Bátasafns Breiðafjarðar

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31