Tenglar

17. desember 2021 | Sveinn Ragnarsson

Súðbyrðingar á skrá UNESCO

Hafliði Aðalsteinsson rær Sendlingi sem Ólafur Bergsveinsson langafi hans smíðaði upphaflega fyrir rúmum 130 árum. Ljósmynd/Vitafélagið
Hafliði Aðalsteinsson rær Sendlingi sem Ólafur Bergsveinsson langafi hans smíðaði upphaflega fyrir rúmum 130 árum. Ljósmynd/Vitafélagið
1 af 3

Súðbyrðingar á skrá UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf

Smíði og notkun súðbyrðinga, hefðbundinna norrænna trébáta, er komin á skrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) yfir óáþreifanlegan menningararf. Þetta er fyrsta íslenska tilnefningin og fyrsta samnorræna tilnefningin sem samþykkt var á fundi Milliríkjanefndar um varðveislu menningarerfða í París 14. desember.

 

Vitafélagið – íslensk strandmenning hafði veg og vanda af undirbúningi tilnefningarinnar fyrir hönd Íslands, undir forystu Sigurbjargar Árnadóttur.

 

Hinn dæmigerði norræni trébátur — súðbyrðingurinn — hefur fylgt Norðurlandabúum um árþúsundir og greitt þeim leið um hafið. Súðbyrðingarnir voru farkostir fólks hvarvetna með ströndum Norðurlandanna, þeir voru mikilvæg samgöngutæki sem tengdu Norðurlandaþjóðirnar og á þeim var dregin björg í bú. Súðbyrðingunum tengist dýrmætur norrænn menningararfur og þeir gegna ríku hlutverki í strandmenningu Norðurlandaþjóðanna. Í öðrum heimshlutum eru súðbyrtir bátar nær óþekktir.

 

Þessi verkþekking er nú komin á lista UNESCO  yfir menningarerfðir mannkyns – listann yfir þýðingarmikla starfshætti sem borist hafa frá kynslóð til kynslóðar – hefðir sem munu hverfa verði þeim ekki viðhaldið.

 

Í tilefni af þessum merka áfanga var áformað að halda sameigilega athöfn í Noregi þar sem fulltrúar frá norðurlöndunum kæmu saman, en vegna Covid var hætt við það og í stað þess voru í gær athafnir í hverju landi fyrir sig, allar á sama tíma. Hér á Íslandi var samkoman í Norræna húsinu, þar sem mættu fulltrúar hins opinbera, fólk sem vann að undirbúningi tilnefningarinnar og áhugamenn um smíði og varðveislu súðbyrðingsins. Meðal þeirra voru Hafliði Aðalsteinsson og Hjalti Hafþórsson.

Nokkra kátínu vakti að sumir sem tóku til máls við athöfnina áttu í erfiðleikum með að bera fram orðið súðbyrðingur og þekktu það eiginlega ekki,  enda er það dálítill tungubrjótur.

 

Af þessu tilefni var í þættinum Víðsjá á rás 1 rætt við þá Hafliða Aðalsteinsson og Einar Jóhann Lárusson nema, um bátasmíðar. (viðtalið hefst á mínútu 8:35)

 

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31