Tenglar

12. ágúst 2011 |

Sumarhátíð ungra og aldinna í Barmahlíð

Vinafélag Barmahlíðar gekkst fyrir sumarhátíð á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Barmahlíð á Reykhólum á miðvikudag. Í heimsókn komu velflest börn í sveitarfélaginu ásamt þó nokkrum mæðrum. Þarna voru á ferðinni krakkar sem boðið hafði verið í (pínulítið síðbúinn) sex ára afmælisfagnað Margrétar Helgu Jökulsdóttur á Reykhólum. Afmæli hennar var reyndar 27. júlí en þá var hún stödd í Reykjavík. Þennan sólfagra dag átti hins vegar níu ára afmæli Birna Björt Hjaltadóttir á Reykhólum, ein í krakkahópnum sem kom í heimsókn, auk þess sem Unnur Karlsdóttir frá Kambi í Reykhólasveit átti 95 ára afmæli, en hún er búsett í Barmahlíð.

 

Óhætt er að segja að veðrið hafi ekki verið blíðara, bjartara og lygnara í senn á Reykhólum þetta sumarið eftir linnulítinn vindsperring vikum og mánuðum saman en einmitt þennan dag. Á útigrillið fóru nokkrir tugir af pylsum auk kjötsins af fjórum lambalærum og meðlæti var af ýmsu tagi. Grillmeistarar voru Ásta Sjöfn á Litlu-Grund og Rebekka á Stað ásamt yfirmeistaranum Guðmundi starfsmanni í Barmahlíð. Auk þess að njóta veislufanganna sungu krakkarnir fyrir heimilisfólkið og fóru í leiki.

 

Kringum miðdegiskaffið kom síðan Ásdís Jónsdóttir frá Hólmavík og spilaði á harmoniku og gítar fyrir heimilisfólk, auk þess sem Ása Stefánsdóttir í Árbæ kom með sinn gítar. Nokkrar konur í sveitinni sungu jafnframt við undirleik þeirra.

 

Fáeinir tugir fólks eru í Vinafélagi Barmahlíðar. „Það mættu alveg vera fleiri“, segir Málfríður Vilbergsdóttir á Hríshóli í Reykhólasveit, sem er þar í stjórn. Hún hvetur alla sem gætu verið með einhverjar uppákomur í Barmahlíð, upplestur, söng eða annað til að gleðja heimilisfólkið, stytta mannskapnum stundir og brjóta upp dagana, til að koma við og gera eitthvað skemmtilegt og fá sér kaffisopa í leiðinni. „Margir hérna í sveitarfélaginu eiga í öðrum landshlutum vini og kunningja sem eiga hér leið um og gætu gert eitthvað slíkt“, segir hún.

 

Fólk í Vinafélaginu notaði jafnframt tækifærið í sumarblíðunni og reytti lengi dags arfa og annað sem ekki er vel séð í blómabeðum og undir limgerðum í garðinum við Barmahlíð.

 

Hér fylgja nokkrar myndir sem teknar voru í fagnaðinum. Allmargar fleiri er að finna undir Ljósmyndir > Myndasyrpur > Börn í Barmahlíð 10.8.2011 í valmyndinni vinstra megin.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31