Tenglar

16. mars 2012 |

Sumarhús í Svínanesseli, geitamjólk og fleira

Svínanessel (guli punkturinn). Kort af vef Landmælinga Íslands (lmi.is).
Svínanessel (guli punkturinn). Kort af vef Landmælinga Íslands (lmi.is).

Kotbýlið Svínanessel við Kvígindisfjörð í Múlasveit í núverandi Reykhólahreppi er fyrirmyndin að Sumarhúsum í Sjálfstæðu fólki eftir Halldór Kiljan Laxness. Fyrr og síðar hafa ýmsir talið, og telja jafnvel enn í dag, að Veturhús í Jökulsdalsheiði eystra hafi verið fyrirmyndin - af ástæðum sem eru mjög vel skiljanlegar þegar sagan er lesin. Kiljan sjálfur þvertók hins vegar fyrir það, kvaðst aldrei hafa þángað komið.

 

Öðru hverju eru á Rás eitt þættir undir samheitinu Útvarpsperlur. Þetta eru misgamlir þættir sem þykja sérlega vandaðir og merkilegir. Í gær var þar útvarpsperlan Sumarhús í Svínanesseli, fléttuþáttur Finnboga Hermannssonar fyrrum útvarpsmanns Vestfirðinga, sem fyrst var útvarpað árið 1998. Þar greinir ítarlega frá því þegar bláókunnugur nítján ára unglingur sunnan úr Mosfellsveit birtist í Svínanesseli og baðst gistingar, dvaldist vikutíma og þótti geitamjólkin góð. Hann var þá þegar byrjaður að ferðast um landið, skrá sitthvað sem hann sá og heyrði og viða að sér efni í heimsbókmenntir framtíðarinnar.

 

Meðal annars er í þættinum rætt við aldraða konu í Bolungarvík, sem var barn að aldri í Seli þegar Halldór Guðjónsson frá Laxnesi vísiteraði þar. Henni var þessi ungi maður alla tíð minnisstæður enda þótti hann dálítið undarlegur - öðruvísi en fólk þar um slóðir átti að venjast. Hann fór allber í sjóböð niður af kotinu, vafði fötin sín saman þegar hann gekk til náða, batt utan um og hengdi þau upp í loftið svo að óværan kæmist ekki í þau. Þar mun hins vegar ekki hafa verið nein lús þó að hún hafi verið víða.

 

Hins vegar er Kitti í Seli - Kristján Guðjónsson bóndi í Svínanesseli þegar Kiljan kom í heimsókn og lengi fyrr og síðar - alls ekki fyrirmynd Bjarts í Sumarhúsum. Bjartur átti sér væntanlega margar fyrirmyndir en þó enga sérstaka - fyrir utan sjálfan erki-Íslendinginn sauðþráa.

 

Hér má hlusta á þáttinn Sumarhús í Svínanesseli - 55 mínútur.

 

Athugasemdir

Bergsveinn G Reynisson, laugardagur 17 mars kl: 09:19

´I Svínanesseli sér enn vel fyrir tóftum og má vel sjá fyrir sér aðstæður þar, sandfjara framan við húsin og klettahjallar upp eftir allri hlíð, með góðri beit (fyrir geitur). Annars hefur þetta nú ekki verið stórbýli og sér hvergi fyrir ræktun. Það er ca tveggja tíma gangur út að Seli frá Kvígindisfirði og gott að komast þar að af sjó. Þessi perla í Reykhólahreppi hefur það umfram margar aðrar að yfir hana verður sennilega aldrei lagður vegur.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30