Sumarliði póstur hentari rafrænn en í sniglapósti
„Þetta var með eindæmum tíðindalítill aðalfundur, segir Ólína Kristín Jónsdóttir frá Mýrartungu, formaður Barðstrendingafélagsins. „Í fyrra þurfti að kjósa í varastjórn en núna gáfu allir kost á sér áfram í stjórn og nefndir þannig að þetta voru bara rússneskar kosningar.“
Ólína hvatti fólk til að koma með hugmyndir að viðburðum sem félagið gæti staðið fyrir til að fá fólk til að mæta. „Fólk á öllum aldri og alls ekki síður unga fólkið sem er enn að flytja úr sveitunum á fullt erindi í átthagafélögin.“
Að venju var farið yfir skýrslu stjórnar og skýrslu kvennadeildar félagsins um starfið á árinu og farið yfir reikninga. Allt var þetta samþykkt án umræðna.
Hvatt var til þess, að vegna mikils kostnaðar væri gott að sem flestir myndu velja að fá fréttabréfið Sumarliða póst frekar sent rafrænt en í sniglapósti. Þeir sem vilja skipta um sendingarmáta eru beðnir að hafa samband við ritnefndina í netfanginu sumarlidipostur@gmail.com.
Myndirnar frá aðalfundinum sem hér fylgja tók Jóhann Magnús Hafliðason frá Hafrafelli. Þar getur að líta Ólínu Kristínu formann, varaformanninn Helga Sæmundsson frá Patreksfirði, sem var fundarstjóri, ritarann Hugrúnu Einarsdóttur frá Gilsfjarðarbrekku og Láru Þórarinsdóttur frá Tálknafirði, formann kvennadeildarinnar.
Barðstrendingafélagið er þremur mánuðum eldra en lýðveldið, stofnað 15. mars 1944.