Sundskák og útitafl á Patreksfirði
Í tilefni af Skákdegi Íslands á laugardag (afmælisdagur Friðriks Ólafssonar) vígðu nemendur í Patreksskóla ásamt Henrik Danielsen stórmeistara útitaflmenn sem nemendur í 10. bekk smíðuðu undir leiðsögn Einars Skarphéðinssonar smíðakennara. Jafnframt bætist sundlaugin á Patreksfirði í hóp þeirra lauga þar sem hægt er að iðka sundskák.
Fram kom í máli Nönnu Sjafnar Pétursdóttur skólastjóra, að hún vonaðist til þess að með tilkomu nýju útitaflmannanna eflist áhugi og iðkun skáklistarinnar meðal nemenda.
Henrik Danielsen og Áróra Hrönn Skúladóttir afhentu jafnframt sundskáksett að gjöf frá Skákakademíunni, en sundskák á Patreksfirði er samstarfsverkefni hennar og íþróttamiðstöðvarinnar Brattahlíðar, sem laugin tilheyrir. Þar með verður hægt að rækta bæði líkamann og hugann í einni ferð í laugina á Patreksfirði.
Við gjöfinni tók Geir Gestsson, forstöðumaður Brattahlíðar. Hann þakkaði gefendum sundskáksettið um leið og sagðist vona að stórmeistarinn Henrik Danielsen, sem búsettur er á Patreksfirði, kæmi alla morgna til að kenna gestum íþróttamiðstöðvarinnar skák.
Myndirnar tók Magnús Ólafs Hansson á Patreksfirði.