Svæðisútvarpið hefur sungið sitt síðasta
Eftirfarandi samantekt frá umræðum á þingi er fengin af fréttavefnum dv.is.
Höskuldur var málshefjandi og sagði það grafalvarlegt mál ef RÚV væri staðið að því að brjóta þjónustusamning sinn við ríkið.
Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra kvaðst ætla að ganga úr skugga um hvort ákvarðanir RÚV varðandi svæðisstöðvarnar væru í samræmi við þjónustusamning sem menntamálaráðuneytið gerir við RÚV. Hann sé fyrirkomulag í mótun. Samningurinn hafi nú verið tekinn til endurskoðunar og ætlunin sé að ræða málið við þingkjörna stjórn Ríkisútvarpsins.
Einar K. Guðfinnsson, Sjálfstæðisflokki, sagði að svæðisstöðvar RÚV hefðu dýpkað hlutverk stofnunarinnar. Nú stefndi í að starfsemin yrði hvorki fugl né fiskur. Auk þess léki vafi á raunverulegum sparnaði með niðurskurði svæðisstöðvanna, þær væru ekki sá stóri kostnaður sem valdur væri að hremmingum RÚV. Þetta væri sama gamla sagan, alltaf væri byrjað á niðurskurði fjærst höfuðstöðvum.
Jónína Rós Guðmundsdóttir, Samfylkingunni, kvaðst hafa heyrt margar góðar hugmyndir frá starfsmönnum og öðrum um sparnaðarleiðir og möguleika til að halda áfram svæðisútsendingum og efaðist um að stjórnendur RÚV hefðu kannað síkar leiðir.
Ásmundur Einar Daðason, Vinstri grænum, sagði að það hefði ekki verið skilningur þingmanna við gerð fjárlaga að krafan um sparnað í rekstri RÚV leiddi til þess að svæðisútsendingum yrði hætt.
Mikil andstaða virðist vera á Alþingi við niðurskurði Ríkisútvarpsins á svæðistöðvunum og lýstu allir þingmenn, sem til máls tóku, efasemdum um ráðslag RÚV í þessu efni.
Sparnaðurinn sem RÚV hyggst ná með niðurskurði svæðisútsendinga er 31 milljón króna á rekstrarárinu.