Svæðisútvarpið lagt niður – eða þvert á móti
Svæðisútvarp Vestfjarða á Ísafirði verður lagt niður um áramót og sama gildir um svæðisstöðvarnar á Akureyri og Egilsstöðum. Þetta er liður í sparnaðaraðgerðum Ríkisútvarpsins sem kynntar voru í dag. Þrátt fyrir þetta er haft eftir Óðni Jónssyni fréttastjóra RÚV í samtali við mbl.is, að ekki sé hægt að líta svo á, að verið sé allt að því að leggja svæðisútvörpin niður, heldur þvert á móti. Verið sé að hætta með svæðisbundnar útsendingar, en fólkinu sem verði eftir verði ætlað að setja inn fréttir á landsrásir RÚV.
Hvað sem túlkun fréttastjórans líður, þá blasir við, að Svæðisútvarp Vestfjarða verður lagt niður. Horfið verður til þess sem var fyrir stofnun þess, en þá var um árabil starfandi fréttamaður á Ísafirði, sem annaðist einnig dagskrárgerð.
Svæðisútvarp Vestfjarða hóf göngu sína í október 1989 eða fyrir liðlega 19 árum. Forstöðumaður frá upphafi og til skamms tíma var Finnbogi Hermannsson, sem áður hafði verið fréttamaður RÚV á Ísafirði. Þegar Finnbogi lét af starfi forstöðumanns fyrir hálfu öðru ári og settist í helgan stein tók Guðrún Sigurðardóttir við, en hún hafði þá mjög lengi verið fréttamaður hjá Svæðisútvarpinu.
Í fyrstu var Svæðisútvarpið með útsendingar tvo daga í viku, klukkutíma í senn, og náði til norðursvæðis Vestfjarða. Með árunum var dögunum fjölgað í þrjá og síðan í fjóra í viku en útsendingartíminn hverju sinni styttist. Svæðið sem útsendingarnar náðu til stækkaði smátt og smátt og spannar nú undir lokin allan Vestfjarðakjálkann og allt suður í Reykhólahrepp.
Hlustendur Svæðisútvarps Vestfjarða geta væntanlega dæmt um það sjálfir eftir áramótin hvort það hafi verið lagt niður - eða þvert á móti, eins og fréttastjórinn segir.
Meðfylgjandi úrklippa er úr Morgunblaðinu 29. október 1989. Þess má geta til fróðleiks fyrir heimafólk í Reykhólahreppi (og auðvitað aðra líka), að fyrsti tæknimaður Svæðisútvarps Vestfjarða, Kristján Guðmundsson rafmagnsverkfræðingur, er sonur Guðmundar heitins Ingólfssonar og Jónu Valgerðar Kristjánsdóttur í Mýrartungu II í Reykhólasveit. Bróðir Kristjáns, Jóhannes Bjarni Guðmundsson (Jói Baddi), nú flugstjóri, starfaði um skeið sem fréttamaður á Svæðisútvarpinu fyrir mörgum árum og einnig á fréttastofunni syðra.