Tenglar

13. júní 2016 |

Svartur dagur hjá Flateyjarkirkju

Flateyjarkirkja. Klausturhólar vinstra megin. Bókhlaðan í hvarfi við kirkjuna. Ljósm. flatey.com.
Flateyjarkirkja. Klausturhólar vinstra megin. Bókhlaðan í hvarfi við kirkjuna. Ljósm. flatey.com.

Það var heldur hryssingslegt kvöld í Flatey um miðjan maí. Kaldur vindur af norðaustri, sem er alvanalegt á þessum tíma, hitastigið ekki hátt en úrkoma lítil sem engin. Fáir í húsum og fáir á ferli þó fuglinn væri kominn og jafnvel sestur upp. Einn erlendur ferðamaður var þó á ferli og hafði tjaldað á tjaldsvæðinu í Flatey. Þegar gáð var til veðurs úr Krákuvör morguninn eftir var tjaldið horfið og ferðamaðurinn hvergi sjáanlegur. Ekki var fárast við þessu, enda kemur það fyrir að erlendir ferðamenn koma sér undan greiðslu hóflegs tjaldsgjalds og láti sig hverfa.

 

Daginn eftir þegar Baldur var farinn, enda ein brottför á þessum tíma, komu börn úr Ásgarði að máli við Magnús bónda og tjáðu honum að greinilegt væri að söfnunarbaukur Flateyjarkirkju hafi verið brotinn upp og einhverjir hafi verið í kirkjunni sem ekki hafi gengið vel um. Magnús bóndi brá skjótt við og skundaði til kirkju, og þá sást að söfnunarbaukurinn hafi verið brotinn upp, allir seðlar teknir og aðkoman var ljót.

 

Strax varð ljóst að einhver óboðinn gestur hafði dvalið næturlangt í kirkjunni. Farið hafði verið upp á kirkjuloftið, ábreiðunni af kirkjuorgelinu verið svipt af, opnaðar dyr inn í klukknaportið, fótspor í gluggakistu eftir hinn óboðna gest þegar hann reyndi að klifra upp í predikunarstólinn, útbrunnar eldspýtur á altari kirkjunnar og niðurbrunnin kerti. Rusl á gólfi, óhreinindi eftir skítuga skó og önnur ummerki mannaferða. Svo sannarlega var aðkoman ljót, og kom illa við Magnús bónda, sem jafnan ber hag kirkjunnar fyrir brjósti. Læsti hann snarlega kirkjunni og hefur hún verið læst síðan þetta ljóta atvik kom upp.

 

Strax í kjölfarið á þessu óhæfuverki var gripið til aðgerða til að koma í veg fyrir að slíkt endurtæki sig. Komið verður upp tímastilltu dyralokunarkerfi, sem mun loka Flateyjarkirkju að kvöldi og opna aftur að morgni, verðmætum kirkjunnar verður komið fyrir í öryggisskáp og brunavarnir kirkjunnar efldar til muna. Leitað verður eftir aðstoð allra Flateyinga og velunnara Flateyjarkirkju um að hafa augun opin ef fólk verður vart við eitthvað óvenjulegt í umgengni í kirkjunni og tilkynna slíkt strax í síma til Magnúsar í Krákuvör, sími 896-1451, eða í Krákuvör, sími 438-1451.

 

Það er von okkar sem komum að daglegum rekstri kirkjunnar, að þessar aðgerðir verði til þess að kirkjan geti verið opin meiri hluta dags og umgengni verði til fyrirmyndar eins og hún hefur ætíð verið.

 

Í framhaldi af þessu atviki vakna fjölmargar spurningar hjá fámennum söfnuðum sveitakirkna um land allt, sem eru án eftirlits eða gæslumanna alla daga ársins. Því miður er þetta atvik ekkert einsdæmi. Nú í maí var komið að kanadísku pari sem hafði valið Reykhólakirkju sér til næturdvalar. Þvegið klæði sín og útbúnað úr vöskum kirkunnar, breitt allt sitt hafurtask til þerris á kirkjubekkina, breitt úr svefnpokum sínum upp við altarið og sofið þar.

 

Þegar komið var að þessum kanadísku ferðamönnum um morguninn voru þau að elda sér mat á prímus inni í kirkjunni. Þegar þau voru spurð hvort þeim fyndist þetta athæfi sitt vera í lagi, var svarið að þeim finnst þetta allt í lagi enda væru þau fjárvana, kirkjan tóm og nóg væri plássið. Því miður sýna þessi viðbrögð þessa kanadíska pars í hnotskurn hvaða hug allt of margir erlendir ferðamenn bera til kirkna á Íslandi.

 

En hvað er til ráða? Eigum við að loka öllum kirkjum sem ekki hafa fjárhagslega burði að ráða sér gæslumann? Eigum við að banna öllum ferðamönnum eða aðkomufólki aðgang að kirkjum landsins? Eigum við að hafa kirkjur landsins aðeins opnar ákveðna dagstund og þá undir eftirliti? Eigum við að verja kirkjur landsins með vöktunarmyndavélum og aðgangsstýringu? Eigum við að takmarka aðgengi að ákveðnum hlutum kirkna landsins? Eigum við að læsa niður allt sem fémætt er í kirkjum landsins? Eða eigum við að láta sem ekkert sé, hafa kirkjur landsins opnar sem hingað til og bjóða öllum að ganga í Guðshús?

 

Eitt við ég segja, og það er mín bjargfasta trú. Við eigum ekki að láta fámenna villuráðandi sauði stjórna aðgerðum okkar og láta þeirra misgjörðir spilla fyrir fjöldanum. Guðshús landsins eiga að vera öllum opin, þau eiga að bjóða alla velkomna að ganga inn í kirkjur okkar til að njóta kyrrðar, setjast niður og hugsa um lífið og tilgang lífsins og skoða hug sinn gagnvart Almættinu og njóta þeirra menningarverðmæta sem kirkjur okkar hafa upp á að bjóða.

 

Við verðum að læra af þessum tiltölulega fáu atvikum, aðgangsstýra aðgengi að kirkjum utan hins venjulega tíma dagsins, læsa kirkjum öll kvöld og nætur, læsa tryggilega niður öll meiriháttar verðmæti kirkjunnar og efla brunavarnir í kirkjum landsins. Við verðum að aðlaga okkur að tíðarandanum þar sem kirkjan er oft á tímum bara staður til að skoða eða sem hluti af ferðalagi fólks um landið. Við verðum að efla árvekni almennings um að tilkynna það sem miður fer og vera ekki hrædd við að grípa inn í ef villuráðandi sauðir vilja fara sínu fram í kirkjum landsins.

 

Við eigum að uppfræða en ekki banna allt með lögum.

 

Gunnar Sveinsson,

Eyjólfshúsi, Flatey.

 

________________________________________________________

 

Um Flateyjarkirkju (flatey.com, vefur Framfarafélags Flateyjar)

 

Kynningarrit um Flateyjarkirkju (Reykhólavefurinn 25. apríl 2016)

 

Athugasemdir

Maria Henley, rijudagur 14 jn kl: 18:03

Þessi frásögn af kirkjunni í Flatey er hryllileg, það virðast engum takmörkum háð hvað sumt fólk getur gert, ef það gengi nú vel um og væri eingöngu inni til hlífðar fyrir veðrum og vindi en NEI því miður er það ekki þannig. Þakka fyrir að þessi pistill að ofan er birtur.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30