Sveitarstjórinn tveggja manna maki?
Það liggur okkur „í léttu rúmi“ segir Hjalti Hafþórsson, hingað til um árabil skráður eiginmaður Ingibjargar Birnu Erlingsdóttur sveitarstjóra Reykhólahrepps um frétt í blaði um annan eiginmann eiginkonu hans. Fréttablaðið Vestfirðir nýútkomið (2. tbl. 2. árg. 14. febrúar 2013) greinir í máli og myndum frá Íslenska saltfélaginu ehf. á Reykhólum. Annar forsvarsmanna fyrirtækisins, Garðar Stefánsson, segir þar skv. því sem eftir honum er haft:
„Konan mín, Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, er ættuð úr Ísafjarðardjúpi og er sveitarstjóri hér í Reykhólasveit.“
Orðalag skráðs eiginmanns Ingu Birnu skv. opinberum tölum, þ.e. Hjalta Hafþórssonar á Reykhólum (í „léttu rúmi“) en ekki Garðars Stefánssonar, er líklega viðeigandi í þessu tilviki.
Svo að frekar sé grafið í blaðinu Vestfirðir kemur þar fram, að tengdafaðir Garðars Stefánssonar er sagnfræðingur á Ísafirði. Þar er þess þó ekki getið, að eiginkona sagnfræðingsins og tengdaföðurins (hann er jafnframt bæjarfulltrúi á Ísafirði og oddviti minnihlutans þar, nánar tiltekið Sigurður Pétursson, betur þekktur sem Siggi Pé) er þingmaðurinn og þjóðfræðingurinn Ólína Þorvarðardóttir með rammar ættir úr Breiðafjarðareyjum.
► 04.12.2012 Bygging saltvinnslu á Reykhólum hafin
► 18.12.2013 Íslenska saltfélagið í fréttum Stöðvar 2
► 23.01.2013 Stefnt að því að húsið verði fokhelt í næsta mánuði
► 04.02.2013 Byggingu saltvinnslunnar við Reykhólahöfn miðar vel