Tenglar

6. apríl 2016 |

Sveitasnapp

Ungir bændur um allt land hafa skipst á að vera með svonefndan Snapchat-reikning samtaka sinna á netinu og er nú svo komið að um 4.000 manns fylgjast með ungum bændum sinna daglegum störfum á þessum samfélagsmiðli. Nýverið bættust eldri bændur einnig við Snapchat-samfélagið og er þeirra reikningur einnig mjög vinsæll. Því er hægt að fylgjast með daglegu lífi bænda í gegnum snjallsímann.

 

Frá þessu er greint á baksíðu Morgunblaðsins í dag.

 

Snapchat er samfélagsmiðill þar sem notandinn hefur 10 sekúndur til að sýna og segja frá hvað hann er að gera. Skilaboðin vistast í sólarhring en eyðast svo sjálfkrafa.

 

„Þetta var hugmynd hjá okkur á aðalfundi í fyrra. Bjarna Rúnarssyni, sem situr í stjórn Ungra bænda, datt þetta snjallræði í hug og við byrjuðum að „snappa“. Þetta byrjaði hægt en boltinn hefur verið að rúlla hratt að undanförnu,“ segir Einar Freyr Elínarson, formaður Ungra bænda. Hver bóndi er með Snapchat-reikninginn í viku, frá sunnudegi til sunnudags.

 

„Það var alltaf hugmyndin að einn ungur bóndi væri með reikninginn í heila viku og það er nánast kominn biðlisti. Það eru mjög jákvæð viðbrögð við þessu brölti okkar,“ segir Einar í samtali við Morgunblaðið.

 

Hvatningarverðlaun á Búnaðarþingi

 

Ungir bændur fengu hvatningarverðlaun á Búnaðarþingi í febrúar og fjölmargir þekktir einstaklingar hafa dásamað þetta framtak á samfélagsmiðlum. Á þinginu kom fram að Snapchat-reikningurinn hefði aukið mikið áhuga á störfum bænda meðal snjalltækjakynslóðarinnar og víðar.

 

„Viðbrögðin hafa komið mér á óvart, ég verð að viðurkenna það. Þegar þeir sem voru að fylgjast með okkur voru komnir upp í nokkur þúsund var þetta orðið svolítið gaman. Þeir sem hafa verið með „snappið“ í hvert skipti hafa fengið margar spurningar til sín og getað þannig verið í beinum tengslum við neytendur og frætt þá sem vilja fræðast. Það er mikið spurt og við höfum verið að reyna að svara eftir bestu getu.“

 

Sjálfur hefur Einar einu sinni verið með reikninginn. Það var í upphafi og hann þarf því að bíða um sinn þangað til röðin kemur að honum á ný, en um 300 eru í samtökunum. „Það hlýtur að fara að koma að mér aftur, það eru ekki það margir ungir bændur á landinu - alltof fáir.“

 

Morgunblaðið.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31