Sviðamessa í Sævangi fyrsta vetrardag
Það verður mikið um dýrðir í Sævangi við Steingrímsfjörð fyrsta vetrardag, núna á laugardaginn 25. október, en þá verður vegleg sviðaveisla á Sauðfjársetrinu. Fullt hús hefur verið síðustu tvö ár í slíkum veislum á setrinu og nokkur hefð komin á skemmtunina. Á boðstólum verða ný heit svið, einnig köld svið, reykt og söltuð, og sviðasulta og sviðalappir, allt ásamt tilheyrandi meðlæti. Í eftirmat verða blóðgrautur, ábrystir og rabarbaragrautur þannig að allir ættu að koma heim saðir og sælir.
Skemmtiatriði verða meðan á borðhaldi stendur, meðal annars verður leikritið Smal heimsfrumsýnt. Þar mun vera um að ræða eins konar námskeið í árangursríkri smalamennsku í túlkun Leikfélags Hólmavíkur.
Ræðumaður kvöldsins verður hinn sérdeilis jákvæði sveitarstjóri Strandabyggðar, Andrea Kristín Jónsdóttir.
Veislustjóri í sviðaveislunni er hinn síkáti Miðhúsabóndi og tónlistarmaður Viðar Guðmundsson. Þar með má búast við að söngur og sprell verði einnig drjúgur hluti af skemmtuninni.
Þá verður spilað bingó undir borðhaldi til yndisauka viðstöddum.
Það er Sauðfjársetur á Ströndum sem stendur fyrir sviðaveislunni. Húsið verður opnað kl. 19 en borðhaldið hefst kl. 20. Aðgangur að skemmtuninni kostar 4.500 krónur og hefur ekkert hækkað síðan í fyrra.
Miðapantanir eru hjá Ester Sigfúsdóttur framkvæmdastjóra Sauðfjársetursins í síma 693 3474.
Myndir nr. 1 og 2 eru frá sviðaveislunni í Sævangi fyrir tveimur árum. Á mynd nr. 3 er ræðumaður kvöldsins, Andrea Kristín Jónsdóttir, hinn sérdeilis jákvæði sveitarstjóri Strandabyggðar.