Tenglar

7. september 2014 | vefstjori@reykholar.is

Tækifæri í menningu og sögu sveitanna

„Fundirnir á Reykhólum og Birkimel á Barðaströnd gengu vonum framar og maður finnur til auðmýktar og þakklætis þegar fólk gefur manni tíma sinn á góðviðrisdögum til að leggja hönd á plóg við þetta verkefni,“ segir forsvarsfólk VestFiðringsins, Elísabet Gunnarsdóttir arkitekt á Ísafirði og Arnaldur Máni Finnsson, guðfræðingur og æskulýðsleiðtogi á Hvilft í Önundarfirði, um tvær samkomur fundaraðarinnar sem fram fóru í vikunni. Þau segja að margt gagnlegt hafi komið fram á báðum stöðum, bæði sem varðar það sem vel gengur en einnig mikilvægar ábendingar um það hvar skórinn kreppir.

 

Fundurinn á Reykhólum var haldinn á Báta- og hlunnindasýningunni og var vel sóttur. Myndirnar sem hér fylgja frá þessum skemmti- og vinnufundi tóku Sveinn Ragnarsson og Elísabet Gunnarsdóttir.

 

„Það má alveg hugsa sér að í framhaldinu verði hannaðar einhvers konar upplifunarferðir þar sem fólk fær að hjálpa til við að flytja sauðfé út í eyjar sem eru vannýttar, annars hverfa þær í sinu og spilla jafnvel fuglalífi,“ segir Arnaldur, en upp úr stendur að hans mati á báðum stöðum að fjölmörg tækifæri liggi í menningu og sögu sveitanna til þess að byggja upp áhugaverð verkefni.

 

„Það eru mörg frumkvöðlafyrirtæki miðað við höfðatölu í Reykhólasveitinni og mörg verkefni framundan í uppbyggingu ferðaþjónustu eins og víðar hér á Vestfjörðum. Við fengum að smakka heimareykta rúllupylsu frá Stað á Reykjanesi, sem er algjört lostæti, en sérstaklega kom þó á óvart að frétta af fullbúinni saumastofu með öllum tækjum og tólum á Barðaströndinni, Saumastofunni Strönd. Það hlýtur að vera hægt að tengja saman fólk með áhuga á hönnun og staðbundinni framleiðslu í framtíðinni svo að slíkar auðlindir geti skilað arði, fyrst og síðast félagslega og menningarlega,“ segir Arnaldur.

 

„Grímuferðirnar á Barðaströndinni og Grímuveðrin lentu í uppáhaldi hjá mér,“ segir Elísabet Gunnarsdóttir. „Þetta var siður sem lagðist af með tilkomu sjónvarpsins sagði fólkið, en þegar nóttin er stjörnubjört og stillt er enn talað um Grímuveður. Þá klæddu börn og fullorðnir sig upp og farið var á milli bæja í dulbúningum og heimilisfólk látið giska á hver væri þar á ferð. Af bæjunum sem heimsóttir voru slógust svo fleiri og fleiri í hópinn, þannig að þetta hafa verið heilu fylkingarnar sem fóru grímuklæddar um sveitina þegar viðraði til Grímuferða. Fundarfólk hélt því fram að þetta hefði ekki tengst neinum sérstökum dögum eða tímamótum heldur bara verið til gamans gert þegar fólki datt það í hug. Við ætlum að reyna komast að því hvaðan þessi siður er kominn, og hver veit nema hann nýtist sem innblástur fyrir einhver verkefni á seinni stigum.“

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31